Fjársýslan tekur þátt í norrænu samtali um samræmda opinbera nýsköpun
5. janúar 2026
Fjársýslan tók þátt í Nordic Innovation Ecosystem Pre-Summit í Helsinki í nóvember sl. Viðburðurinn var á vegum Nordic Innovation, Business Finland, SISP og Startup Estonia, en þar komu saman fulltrúar norrænna ríkja til að ræða framtíð sameiginlegs nýsköpunarumhverfis. Í nýrri samantekt Ramboll Management Consulting er lögð áhersla á að næsta skref Norðurlanda felist í aukinni samhæfingu og skýrari framkvæmd.
Skýrslan dregur fram að Norðurlönd búi að sterkum grunni á sviði rannsókna, mannauðs, stafrænnar getu, fjármagns og trausts, en að sundurleit kerfi og skortur á sameiginlegum framkvæmdaramma hamli því að þessi styrkleiki nýtist að fullu. Fjársýslan tekur undir þessa greiningu og telur mikilvægt að færa aukinn þunga í samhæfingu í samstarfi milli landanna á stuðningi, fjárfestingu og innkaupum á sviði nýsköpunar.
Sem miðlæg stofnun á sviði opinberra fjármála og innkaupa hefur Fjársýslan bæði hlutverk og getu til að styðja við slíka þróun fyrir Íslands hönd. Þátttaka Fjársýslunnar í Nordic Innovation Ecosystem Pre-Summit er liður í áframhaldandi vinnu við að styrkja stöðu Íslands innan norræns nýsköpunarsamstarfs og stuðla að framkvæmd sameiginlegra umbótaverkefna hjá hinu opinbera.
