Fimm hlutu Nýsköpunarverðlaun hins opinbera 2025
14. maí 2025
Í gær fór fram afhending Nýsköpunarverðlauna hins opinbera 2025 á Nýsköpunardegi hins opinbera, þar sem fimm framúrskarandi verkefni og einstaklingar hlutu viðurkenningu fyrir árangur sinn á sviði opinberrar nýsköpunar.
Verðlaunin eru veitt af Fjársýslunni í þeim tilgangi að varpa ljósi á öflugt umbótastarf og nýsköpun sem eykur gæði og skilvirkni í opinberri þjónustu.
Verðlaunahafar ársins 2025 eru:
Benedikt Geir Jóhannesson
Fyrir öflugt einstaklingsframtak við hagnýtingu gervigreindar í umbótaverkefnum og framúrskarandi árangur í opinberri nýsköpun.Réttarvörslugáttin
Fyrir stafvæðingu réttarvörslukerfisins og betri samvinnu milli stofnana innan dómskerfisins.Skatturinn
Fyrir nýtingu gagna og tækninýjunga til að efla þjónustu stofnunarinnar við almenning.
Hafnarfjarðarbær
Fyrir leiðandi umbótastarf við stafræna umbreytingu í þjónustu og rekstri sveitarfélagsins.
Bílastæðasjóður
Fyrir nýsköpun og breytingar á framkvæmd eftirlits með stöðvunarbrotum.
Verðlaunin sýna fjölbreytileika nýsköpunar í opinbera geiranum, allt frá tækniinnleiðingu og gagnadrifinni stefnumótun yfir í notendamiðaðar lausnir og þróun þjónustu við almenning. Hver verðlaunahafi setur fordæmi fyrir hvernig frumkvæði og fagmennska geta umbreytt opinberri þjónustu til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.
Í dómnefnd sátu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Fjársýslunnar og verðlaunahafa síðasta árs:
Ingþór Karl Eiríksson – forstjóri Fjársýslunnar (formaður)
Íris Huld Christersdóttir – sérfræðingur skrifstofu stjórnuna og umbóta hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu
Bryndís Pétursdóttir – verkefnastjóri Sýslumannaráðs (verðlaunahafi 2024)
Styrmir Erlingsson – framkvæmdastjóri Rafrænnar miðstöðvar velferðarsviðs Reykjavíkurborgar (verðlaunahafi 2024)
Bragi Bjarnason – bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar (verðlaunahafi 2024)
Við óskum öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju og þökkum framlag þeirra til opinberrar nýsköpunar.