Fara beint í efnið
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Skólaganga fósturbarna

Fósturbörn hafa rétt á því að sækja skólavist í lögheimilissveitarfélagi fósturforeldra og er það á ábyrgð sveitarfélagsins að þau njóti sömu þjónustu og skólavistar til jafns við önnur börn þar.

Áður en fóstur hefst skal barnaverndarþjónusta er ráðstafar barninu kanna aðstæður til menntunnar í samráði við skólayfirvöld á viðkomandi stað og leggja mat á möguleika viðkomandi grunnskóla til að koma til móts við þarfir barnsins.

Fræðsluyfirvöld, í samstarfi við barnavernd, skulu eiga náið samstarf í tengslum við flutning fósturbarns á milli skóla þar sem hagir barnsins skulu hafðir í fyrirrúmi.  Barnavernd leitar eftir samstarfi við þá aðila sem talið er að veita ættu barni stuðning á fósturheimili, þ.m.t. hjá skólayfirvöldum.

Barnavernd kallar eftir upplýsingum frá skólastjóra eða öðrum innan skólaþjónustu þar sem fram kemur: 

  • Hvort hægt sé að koma til móts við þarfir barns fyrir sérstakan stuðning í námi eða kennslu

  • Ef ekki er hægt að koma til móts við fósturbarnið, hvað þarf til að það verði hægt og hvort það verði hægt innan ásættanlegs tímaramma

  • Fjarlægð frá heimili til skóla og ef þarf skipulag skólaaksturs

  • Aðrar upplýsingar er þarf með hliðsjón af velferð og aðstæðum barns

Geti sveitarfélagið ekki komið til móts við þarfir fósturbarns varðandi náms innan ásættanlegs tíma skal barnavernd meta aðra kosti um leið og haft er til hliðsjónar hvort tengsl eða skyldleiki fósturforeldra við barn vegi þyngra en aðrir kostir. Að loknu þessu mati skal barnavernd taka ákvörðun um hvort vista eigi barnið í sveitarfélaginu. 

Innritun í grunnskóla

Barnavernd sér um innritun fósturbarna í grunnskóla og gætir að allar nauðsynlegar upplýsingar um barn fylgi með. Þá skulu nauðsynlegar upplýsingar fara á milli fyrrum skóla barnsins til viðtökuskóla s.s. upplýsingar um fyrri skólagöngu og stuðningsþarfir. Barnavernd fylgir því á eftir að þessar upplýsingar berist á milli. 

Móttökuáætlun

Þegar ljóst er að von sé á að fósturbarn hefji skólagöngu í nýjum skóla skal gera móttökuáætlun sem liggi fyrir eins fljótt og unnt er. Mál barna sem vistast utan heimilis skal ávallt samþætt, skv. lögum um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021, þar sem barnavernd gegnir hlutverki málastjóra. Taka skal mið að því að skoða í upphafi hvaða starfsfólk innan grunnskólans muni sitja í stuðningsteymi barnsins. Barnavernd skal leita eftir samstarfi við þá aðila. Miða skal við að fósturbarn hefji nám í viðtökuskóla innan tveggja vikna frá innritun. Hafi fósturbarn sérþarfir skal horfa til reglugerðar um nemendur með sérþarfir við gerð einstaklingsáætlunar og aðlögunar.

Móttökuáætlun fósturbarns  skal vera í samræmi við almenna móttökuáætlun grunnskóla og skal þar koma fram:

  • Samvinna innan skóla um nám og þjónustu við barn

  • Samvinna við fósturforeldra og upplýsingagjöf 

  • Kennslufyrirkomulag

  • Fyrirkomulag á aðlögun og kennslu á aðlögunartíma

  • Samstarf og fyrirkomulag á samstarfi við barnavernd

Kostnaður vegna skólagöngu

Bæði almennur kostnaður vegna skólagöngu fósturbarns og viðbótarkostnaður vegna aksturs og stuðnings skal greiðast af því sveitarfélagi sem ráðstafaði barninu í fóstur, nema að um annað hafi verið samið, að því leyti sem hann fæst ekki greiddur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Sveitarfélögin gera skriflegan samning sín á milli um kostnað. Ef tilefni er til getur hvort sveitarfélag um sig óskað eftir endurskoðun samkomulags. Komi upp ágreiningsmál varðandi kostnað skal leita til Úrskurðarnefndar skipuðum fulltrúum frá ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Barna- og fjölskyldustofu.

Tilkynningarskylda

Vakni sá grunur, af starfsfólki skóla, að fósturbarn búi ekki við góðan aðbúnað á fósturheimili þá ber þeim að tilkynna viðeigandi barnaverndarþjónustu eins og um aðra nemendur skólans sé að ræða sbr. tilkynningarskyldu þeirra er hafa afskipti af börnum skv. 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.