Fara beint í efnið
Blóðbankinn Forsíða
Blóðbankinn Forsíða

Blóðbankinn

Svona fer blóðgjöf fram

Þegar þú kemur að gefa blóð er mikilvægt er að vera við góða heilsu og vel úthvíld/-ur.

Ef þú hefur nýlega átt við veikindi eða sjúkdóma að stríða, tekið lyf, verið í útlöndum eða annað slíkt gætir þú þurft að bíða með blóðgjöf. Sjá nánar um hvenær má gefa blóð.

Áður en þú kemur

  • Mikilvægt er að borða og drekka vel 1-2 klst fyrir blóðgjöf.

  • Ekki er ráðlagt að fara í líkamsrækt eða sund sama dag og gefið er blóð. Vökvatapið sem verður við það er of mikil álag fyrir líkamann ofan á vökvatapið sem fylgir blóðgjöfinni.

Blóðgjöfin

Heimsóknin í heild tekur 30-40 mínútur. Á þeim tíma gerist eftirfarandi:

  • Þú færð upplýsingahefti um smitvarnir og blóðgjöf.

  • Hjúkrunarfræðingur fer með þér í viðtalsherbergi og fer vel yfir spurningar um heilsufar (pdf). Með undirritun þinni staðfestir þú að hafa svarað spurningunum samkvæmt bestu vitund svörin með undirritun. Einnig er blóðþrýsingur og púls mældur.

  • Það er sett upp nál og blóðprufur teknar. Blóðið er rannsakað með tilliti til HIV og lifrarbólguveiru B og C. Einnig er magn járns og blóðrauða mælt.

  • Blóðgjöfin sjálf tekur 5-8 mínútur og teknir eru 450 millilítrar úr upphandlegg. Þú hvílir á blóðtökubekk og færð bolta til að kreista á meðan blóðið rennur í pokann.

  • Öllum er ráðlagt að fá sér hressingu í kaffistofunni áður en þau kveðja.

Þú getur hætt við að gefa blóð hvenær sem er í ferlinu án þess að gefa ástæðu. Starfsfólk Blóðbankans er bundið þagnarskyldu og farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Eftir blóðgjöf

  • Hafa umbúðir á stungustað í 4-6 klukkustundir til að koma í veg fyrir sýkingu.

  • Hlífa handlegg fyrstu klukkutímana, til dæmis ekki lyfta þungu. Það minnkar líkur á mari eða blæðingu frá stungustað.

  • Ekki er ráðlagt að fara í líkamsrækt eða sund sama dag og gefið er blóð.

  • Fólki sem stundar áhættustarf eða hefur áhættuáhugamál er ráðlagt að fresta því um 12 klukkustundir eftir blóðgjöf. Undir þetta falla til dæmis flugáhafnir, flugumferðarstjórar, kafarar og atvinnubílstjórar.

Ef upp koma vandamál eða aukaverkanir eftir blóðgjöfina skaltu hafa samband við Blóðbankann.

Ef þú veikist á næstu 14 dögum eftir blóðgjöf skaltu hafa samband við Blóðbankann.