Hvenær má gefa blóð
Ýmislegt getur haft áhrif á það hvort þú megir gefa blóð. Sumt hefur áhrif í stuttan tíma en annað í lengri, jafnvel alla ævi.
Tími milli blóðgjafa
Konur mega gefa blóð á 4 mánaða fresti
Karlmenn mega gefa blóð á 3 mánaða fresti
Þættir sem hafa áhrif á blóðgjöf
Notkun lyfja og undirliggjandi sjúkdóma getur komið í veg fyrir blóðgjöf.
Nauðsynlegt er að upplýsa um notkun allra lyfja vegna blóðgjafar.
Inntaka vítamína og fæðubótarefna getur hindrað blóðgjöf tímabundið.
Starfsfólk Blóðbankans veitir upplýsingar um reglur varðandi lyf og blóðgjöf. Einnig má lesa meira um áhrif lyfjainntöku á vefnum blóðgjafi.is.
Frestur vegna bólusetninga getur verið enginn eða allt að átta vikum.
Flest dauð bóluefni gefin í fyrirbyggjandi skyni hindra ekki blóðgjöf en bólusetning með lifandi bóluefni getur hindrað blóðgjöf í ákveðinn tíma vegna hættu á smiti.
Nánar um bóluefni og áhrif bólusetningar á blóðgjöf á vefnum blóðgjafi.is.
Veikindi
Almennar reglur
Þegar um venjulegt kvef er að ræða má gefa blóð þegar einkenni hafa gengið yfir.
Þegar hiti yfir 37,8°C er til staðar má ekki gefa blóð fyrr en 2 vikum eftir að fullum bata var náð.
Sýking
Ekki má gefa blóð ef:
sýking er til staðar (bráð eða langvinn).
innan við tvær vikur hafa liðið frá því að fullum bata var náð.
innan við tvær vikur hafa liðið frá því að töku sýklalyfja lauk.
Nánar um áhrif sýkinga á blóðgjöf á vefnum blóðgjafi.is.
Sár
Gefa má blóð ef sárið er lítið, þurrt og greinilega ekki sýkt (ekki roði í kringum það).
Ekki má gefa blóð ef viðkomandi hefur húðsár sem gæti verið sýkt eða er opið
Nánar um opin sár og áhrif á blóðgjöf á vefnum blóðgjafi.is.
Við skurðaðgerðir getur orðið verulegt blóðtap. Því er mikilvægt að blóðgjafar gefi ekki blóð ef skurðaðgerð er fyrirhuguð.
Blóðgjöf stuttu fyrir aðgerð getur seinkað bataferli eftir aðgerð.
Hætta á sýkingu getur fylgt aðgerðum, frá skurðsári eða tækjum sem notuð eru við aðgerðina. Því má ekki gefa blóð nema eftir vissan frest frá aðgerð.
Frestur fyrir blóðgjöf eftir minni háttar opnar aðgerðir er 3 mánuðir.
Frestur fyrir blóðgjöf eftir flestar stærri skurðaðgerðir er 6 mánuðir.
Frestur vegna liðspeglana er tvær vikur, ef engin aðgerð er gerð t.d. hné- eða axlarspeglun
Frestur vegna annarra speglana er 6 mánuðir, t.d maga- eða ristilspeglun.
Nánar um skurðaðgerðir og áhrif þeirra á blóðgjöf á vefnum blóðgjafi.is.
Einstaka undirliggjandi sjúkdómar hindra að einstaklingur geti gerst blóðgjafi. Mismunandi reglur gilda fyrir hvern sjúkdóm.
Nánar má lesa um áhrif sjúkdóma á blóðgjöf með leit á vefnum blóðgjafi.is.
Almennar reglur
Ekki má gefa blóð fyrr en minnst 6 mánuðir hafa liðið, ef blóðgjafi hefur frá síðustu blóðgjöf:
Fengið húðflúr (á einnig við um húðflúr á augabrúnum)
Skartgripagötun eða aðrar stungur í húð til dæmis rafháreyðingu
Nánar um líkamsgötun og áhrif á blóðgjöf á vefnum blodgjafi.is/1090
Við hefðbundna blóðgjöf er tekinn um hálfur lítri af blóði sem getur haft áhrif á getu líkamans við áreynslu.
Það er því ekki ráðlagt að fara í líkamsrækt eða sund sama dag og gefið er blóð
Líkamsrækt getur aukið vökvatap
Auknar líkur á blæðingu á stungustað
Auknar líkur á yfirliði
Nánar um líkamsrækt og áhrif á blóðgjöf á vefnum blóðgjafi.is.
Starfsfólk Blóðbankans gefur upplýsingar um hvaða lönd og landsvæði teljast vera áhættusvæði fyrir veirusýkingar með tilliti til blóðgjafa.
Á tímabilinu 1.apríl-30.nóvember er undantekningalaust 4.vikna frestur vegna ferðalaga til Norður-Ameríku (Bandaríkin og Kanada)
Nánar um ferðalög á vefnum blóðgjafi.is