Fara beint í efnið

Prentað þann 4. jan. 2025

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 1. jan. 2021 – 1. jan. 2022 Sjá núgildandi

1195/2017

Reglugerð um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar.

I. KAFLI Frestun og flýting töku ellilífeyris.

1. gr. Frestun töku ellilífeyris.

Þeim sem öðlast hafa rétt til ellilífeyris samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að fresta töku hans til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun fjárhæðar lífeyrisins. Heimild þessi er bundin því skilyrði að viðkomandi hafi ekki fengið greiddan ellilífeyri frá almannatryggingum eða skyldubundnum lífeyrissjóðum, sbr. þó 1. mgr. 5. gr.

Hafi töku ellilífeyris verið frestað skal fjárhæð ellilífeyris hækka hlutfallslega til frambúðar, byggt á tryggingafræðilegum forsendum, reiknað frá ellilífeyrisaldri samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar fram til þess tíma er taka lífeyris hefst.

2. gr. Flýting töku ellilífeyris.

Heimilt er að hefja töku ellilífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar frá 65 ára aldri gegn varanlegri lækkun lífeyrisins.

Hafi töku ellilífeyris verið flýtt skal fjárhæð ellilífeyris lækka hlutfallslega til frambúðar, byggt á tryggingafræðilegum forsendum, reiknað frá þeim tíma er taka lífeyris hefst og til ellilífeyrisaldurs skv. 17. gr. laga um almannatryggingar.

Heimild samkvæmt 1. mgr. er bundin því skilyrði að staðfest sé að greiðslur hefjist hjá öllum skyldubundnum lífeyrissjóðum þar sem umsækjandi hefur áunnið sér réttindi.

Dragi umsækjandi til baka umsókn sína um greiðslur frá skyldubundnum lífeyrissjóðum þar sem hann hefur áunnið sér réttindi teljast skilyrði til flýtingar töku lífeyris samkvæmt ákvæði þessu ekki vera uppfyllt.

3. gr. Breyting á fjárhæð ellilífeyris vegna frestunar eða flýtingar lífeyristöku.

Eftir að greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar hafa verið reiknaðar út skal hækka fjárhæð ellilífeyrisins samkvæmt tryggingafræðilegum forsendum fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris hefur verið frestað skv. 1. gr. reglugerðar þessarar. Á sama hátt skal lækka fjárhæð ellilífeyris fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris hefur verið flýtt skv. 2. gr. reglugerðar þessarar.

4. gr. Tryggingafræðilegar forsendur.

Hlutfallshækkun og -lækkun lífeyris vegna frestunar eða flýtingar töku lífeyris sem byggist á tryggingafræðilegum forsendum er birt í töflu í viðauka I við reglugerð þessa. Við mat á tryggingafræðilegum forsendum skal nota nýjustu dánar- og eftirlifendatöflur sem fjármála- og efnahagsráðherra gefur út að fengnum tillögum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga. Við mat á örorku- og endurhæfingarlíkum skal nota nýjustu örorku- og endurhæfingartöflur sem fjármála- og efnahagsráðherra gefur út að fengnum tillögum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga.

Við ákvörðun um hækkun eða lækkun greiðslna vegna frestunar eða flýtingar töku lífeyris skal ávallt stuðst við þá töflu samkvæmt 1. mgr. sem var í gildi á þeim tíma þegar sótt var um frestun eða flýtingu töku lífeyris.

II. KAFLI Hálfur ellilífeyrir.

5. gr. Heimild til greiðslu hálfs ellilífeyris.

Heimilt er að hefja töku hálfs ellilífeyris frá 65 ára aldri og fresta töku lífeyris að hálfu að uppfylltum skilyrðum samkvæmt 2. mgr.

Heimild skv. 1. mgr. er bundin því skilyrði að allir skyldubundnir lífeyrissjóðir þar sem umsækjandi hefur áunnið sér réttindi og heimila greiðslur lífeyris að hluta hafi samþykkt sama fyrirkomulag og staðfest að greiðslur hefjist. Þá er heimildin bundin því skilyrði að umsækjandi sé enn á vinnumarkaði en þó ekki í meira en hálfu starfi.

Heimild samkvæmt 1. mgr. verður ekki beitt hafi umsækjandi þegar hafið töku ellilífeyris samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar.

6. gr. Framkvæmd greiðslna hálfs ellilífeyris.

Þeim sem hafa hafið töku hálfs ellilífeyris samkvæmt 5. gr. er hvenær sem er heimilt að sækja um ellilífeyri samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar.

7. gr. Útreikningur hálfs ellilífeyris.

Þegar hálfur ellilífeyrir er greiddur skv. 5. gr. og ellilífeyrisaldri samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar hefur verið náð skal fjárhæð hins frestaða hluta lífeyrisins hækka hlutfallslega til frambúðar í samræmi við I. kafla þessarar reglugerðar. Þegar hálfur ellilífeyrir er greiddur samkvæmt 5. gr. áður en ellilífeyrisaldri samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar er náð skal fjárhæð þess hluta ellilífeyris lækka hlutfallslega til frambúðar í samræmi við I. kafla þessarar reglugerðar, reiknað frá þeim tíma er taka hálfs lífeyris hefst og til ellilífeyrisaldurs samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar. Hinn frestaði hluti ellilífeyrisins skal hækka í samræmi við 1. málslið.

Hálfur ellilífeyrir skal vera 1.596.198 kr. á ári. Fjárhæð hálfs lífeyris skal lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr. laga um almannatryggingar, uns lífeyririnn fellur niður. Lífeyrisþegi skal hafa 3.900.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning hálfs ellilífeyris. Gildir það þar til lífeyristaka hefst að fullu.

III. KAFLI Almenn ákvæði.

8. gr. Heimilisuppbót.

Hafi ellilífeyrisþegi nýtt sér heimild til að fresta eða flýta töku lífeyris að fullu eða hluta gildir það einnig um heimilisuppbót og gilda þá ákvæði reglugerðar þessarar eftir því sem við á.

9. gr. Greiðslur úr skyldubundnum lífeyrissjóðum.

Greiðslur úr skyldubundnum lífeyrissjóðum sem rekja má til lágmarkstryggingaverndar skulu teljast til áunnins ellilífeyris frá lífeyrissjóðum samkvæmt 2. og 5. gr.

10. gr. Framkvæmd.

Um framkvæmd reglugerðar þessarar fer samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, og reglugerð þessari.

Tryggingastofnun annast framkvæmd reglugerðarinnar.

11. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 70. gr., sbr. 7. mgr. 17. gr. og 5. mgr. 23. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. einnig 2. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2018.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir 3. mgr. 5. gr. geta þeir sem hafa hafið töku ellilífeyris við gildistöku reglugerðar þessarar nýtt sér heimild til að taka hálfan lífeyri enda séu skilyrði fyrir töku hálfs lífeyris uppfyllt og umsókn berst fyrir 1. janúar 2021. Ákvörðun um töku hálfs lífeyris samkvæmt þessari grein skal gilda frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að umsókn berst.

Þeir sem hafa þegar hafið töku hálfs lífeyris eða sóttu um töku hálfs lífeyris fyrir gildistöku reglugerðar þessarar skulu fá greitt samkvæmt þeim reglum sem þá voru í gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.