Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 11. mars 2014 – 24. maí 2015 Sjá núgildandi

578/2012

Reglugerð um Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

1. gr. Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hefur umráðarétt yfir og annast fasteignir sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk.

Fasteignasjóðurinn tók við öllum réttindum og skyldum Framkvæmdasjóðs fatlaðra 1. janúar 2011 er tengjast fasteignunum, þ.m.t. réttindi vegna framlaga Framkvæmdasjóðs fatlaðra til sjálfseignarstofnana, félagasamtaka og sveitarfélaga.

Fasteignasjóðurinn hefur sjálfstæðan fjárhag og sjálfstæðar heimildir til ráðstöfunar eigna, sbr. 2. gr.

Tekjur Fasteignasjóðsins eru framlög úr sérdeild Jöfnunarsjóðs vegna þjónustu við fatlaða og tekjur af sölu og leigu þeirra fasteigna sem sjóðurinn hefur umráðarétt yfir, sbr. 2. gr.

2. gr. Heimildir Fasteignasjóðsins.

Fasteignasjóðnum er heimilt án sérstakra heimilda í fjárlögum að:

  1. Leigja sveitarfélögum, þjónustusvæðum, sbr. lög um málefni fatlaðra, og rekstrar- eða þjónustuaðilum fasteignir sjóðsins til afnota fyrir þjónustu við fatlað fólk. Frá 1. janúar 2012 er Fasteignasjóðnum heimilt að innheimta leigu vegna viðkomandi fasteigna.
  2. Selja sveitarfélögum, þjónustusvæðum, rekstrar- og þjónustuaðilum, rekstrarfélögum félagslegs húsnæðis eða íbúum fasteignir sjóðsins og semja um greiðslukjör.
  3. Selja fasteignir sjóðsins á frjálsum markaði hafi sveitarfélög eða þjónustusvæði ekki þörf fyrir að nýta þær.
  4. Ráðstafa söluandvirði fasteigna og öðrum tekjum Fasteignasjóðsins umfram gjöld til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og skulu fjármunirnir nýttir til jöfnunar vegna búsetuþjónustu við fatlað fólk.
  5. Fela sérhæfðum rekstraraðilum fasteigna í samráði við sveitarfélög og þjónustusvæði umsýslu og daglegan rekstur fasteigna sjóðsins á viðkomandi svæði.

3. gr. Ráðgjafarnefnd Fasteignasjóðsins.

Ráðherra skipar þriggja manna ráðgjafarnefnd Fasteignasjóðsins til fjögurra ára. Tveir nefndarmenn skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga en einn nefndarmaður skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.

Ráðgjafarnefndin fjallar um stefnumótandi ákvarðanir í rekstri Fasteignasjóðsins og hefur eftirlit með starfsemi hans. Ráðherra tekur ákvarðanir um sölu eigna og ráðstöfun söluandvirðis eignanna skv. 2. gr. að fengnum tillögum ráðgjafarnefndar Fasteignasjóðsins.

Kostnaður við störf ráðgjafarnefndar greiðist af Fasteignasjóði.

4. gr. Staðfesting.

Vinnureglur sem ráðgjafarnefnd Fasteignasjóðsins setur og tillögur nefndarinnar um ráðstöfun fjármuna úr sjóðnum svo og úthlutanir framlaga vegna viðhalds á fasteignum sjóðsins á grundvelli þessarar reglugerðar skulu hljóta staðfestingu ráðherra.

5. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, öðlast gildi við birtingu og gildir til 31. desember 2014. Þá fellur jafnframt úr gildi reglugerð um Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, nr. 1067/2010.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.