Þinglýsing felur í sér opinbera skráningu réttinda á eignum til þess að þau njóti réttarverndar gagnvart þriðja manni. Algengt er að skjöl sem varða eigendaskipti og lán fyrir fasteignum séu færð til þinglýsingar sem og bílalán sem gefa lánveitanda veð í ökutækinu á móti láninu. Hingað til hefur þessi þjónusta falið í sér ferðir á afgreiðslustaði Sýslumanna, og stimplanir á útprentuð frumrit á pappír sem hægir verulega á áfgreiðsutíma og frágangi fasteigna og bílakaupa.
Verkefnið um rafrænar þinglýsingar snýst um að setja upp miðlægan bakenda og gera þinglýsingabeiðendum, sem gjarnan eru fjármálafyrirtæki og fasteignasölur, kleift að ganga frá þinglýsingu með rafrænum og sjálfvirkum hætti. Með því má ganga frá þinglýsingu nauðsynlegra skjala á nokkrum mínútum og án ferðalaga á afgreiðslustaði Sýslumanna um allt land.
Verkefnið hefur verið í þróun frá árinu 2019 og er samstarfsverkefni Stafræns Íslands, sýslumanna, Dómsmálaráðuneytisins, Þjóðskrár Íslands og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Rafrænar þinglýsingar eru lykilþáttur í að Ísland verði fremst í flokki í stafrænni stjórnsýslu.
Markmið
Markmiðið er að allar þinglýsingar verði með rafrænu viðmóti, þannig að senda megi rafrænt inn gögn, hvort sem afgreiðsla verður sjálfvirk eða handvirk.
Stefnt er að því að 80% allra þinglýsinga verði afgreidd með sjálfvirkum hætti að hluta eða í heild.
Verkþættir
Verkefninu er skipt niður í fimm strauma
Greining og samskipti við hagsmunaaðila
Hugbúnaðarþróun - vefþjónustur
Undanfarar og lagfæringar á gögnum
Lög um þinglýsingar og gjöld vegna þeirra
Lög um veðskuldabréf
Helstu áfangar
Stórum áfanga var náð þegar hægt var að aflýsa rafrænt. Þá var hægt að ganga frá aflýsingu veðskjala þar sem lán var greitt upp eða fellt niður.
Fyrsta aflýsing veðskjals var framkvæmd af Arion banka 4. febrúar 2021. Hinir viðskiptabankarnir og lífeyrissjóðirnir fylgdu svo í kjölfarið og tóku fyrsta skrefið í að færa sig yfir í rafrænar þinglýsingar.
Þegar Covid 19 lagðist yfir heimsbyggðina, jókst þörfin á því að breyta skilmálum lána vegna lengingar lánstíma eða annara breytinga. Þar sem grundvelli rafrænna færslna í þinglýsingarkerfið hafði verið komið á fót í verkefninu, var tekin ákvörðun um að gera bönkunum kleift að keyra þessar færslur rafrænt með notkun rafrænna þinglýsinga.
Landsbankinn var fyrstur til að nýta sér þessa viðbót og hinir bankarnir fylgdu svo í kjölfarið. Alls var tæplega 12.000 skilmálabreytingum þinglýst með þessum hætti sem sparaði bönkunum og sýslumönnum ótal handtök við aðgerðir sem annars hefði þurft að gera á pappír.
Möguleikinn á að þinglýsa nýju veðskjali bættist við í september 2021. Við þá aðgerð gátu lánafyrirtækin sent þinglýsingar á endurfjármögnun bíla- og fasteignalána ásamt nýjum bílalánum til rafrænnar þinglýsingar og aflýst gömlum lánum um leið.
Lykill var fyrsta lánafyrirtækið sem þinglýsti rafrænu veðskjali vegna bílakaupa viðskiptavinar.
Möguleikinn á að þinglýsa kröfuhafaskiptum var gefinn út í janúar 2022. Með þeirri færslu er hægt að færa veðskjal á milli lánveitenda og skipta þannig um kröfuhafa.
Landsbankinn var fyrsta lánafyrirtækið sem þinglýsti veðskjali fyrir fasteign. Um var að ræða endurfjármögnun láns sem þegar var hjá bankanum. Aðrir viðskiptabankar hafa svo fylgt í kjölfarið.
Aðgerðin við að skipta um skuldara á láni var gefin út í febrúar 2022. Með þeirri aðgerð er hægt að færa lán af einum skuldara, yfir á annan. Til dæmis þegar kaupandi fasteignar tekur yfir lán sem þegar var á eigninni.
Við útgáfu þjónustu fyrir kröfuhafaskipti kom í ljós þörfin á því að geta keyrt sömu aðgerðina á mörg veðskjöl í einu. Til að mynda þegar lánafyrirtæki sameinast og færa þarf kröfurnar á milli fyrirtækja. Þeirri viðbót var bætt við í september 2022.
Möguleikinn á að þinglýsa afsali í kjölfar kaupsamnings bættist við í mars 2023. Við þá aðgerð gátu fasteignasalar gengið frá lokaskrefi fasteignakaupa og þinglýst afsali.
Fyrstu fasteignasölurnar tengdust vefþjónustum rafrænna þinglýsinga í apríl 2023.
Fyrsta afsalinu var þinglýst í apríl 2023. Það var fasteignasalan Ás sem varð fyrst til og fasteignasalan Procura fylgdi fast á eftir með sínu fyrsta afsali.
Sýslumaðurinn á Suðurlandi sendi inn fyrstu þinglýsingarbeiðnina fyrir fjárnám rafrænt í maí 2023.
Í maí 2023 þinglýsti Lykill fyrstu lotukröfuhafaskiptunum rafrænt.
Landsbankinn var fyrstur til að þinglýsa tryggingabréfi rafrænt.