Fara beint í efnið

Rafrænar þinglýsingar

Rafrænar þinglýsingar eru lykilþáttur í að Ísland verði fremst í flokki í stafrænni stjórnsýslu.

Lög um rafræna þinglýsingu tóku í gildi í apríl 2019 og heimila þau þinglýsingu færslna með rafrænum hætti. Með rafrænum þinglýsingum er átt við að hægt verði með sjálfvirkum hætti að skrá réttindi og skyldur sem varða eignir í opinbera þannig að þau njóti réttarverndar gagnvart þriðja manni. Þinglýsing merkir að opinber skráning réttinda og skyldna hafi átt sér stað og tengist oftast beinum og óbeinum eignarrétti, svo sem veðrétti. Þannig verður hægt að afla staðfestingar hins opinbera á því hver á hvaða rétt og ef um veð er að ræða er skráð röð á réttindum.

Þjóðhagslegur ávinningur af rafrænum þinglýsingum er mikill og er að lágmarki metinn á bilinu 1,2-1,7 ma.kr. á ári, en þá er ótalinn ábati vegna vaxtamunar, hraðari viðskipta, skilvirkara verklagi þegar um viðskiptafléttur er að ræða og minni ferðakostnaðar. Helsti ábatinn er skilvirkara umhverfi hjá sýslumönnum, lánveitendum og öðrum hagsmunaaðilum s.s. fasteignasölum.  Einnig fylgir rafrænum þinglýsingum töluverður ábati fyrir almenning þar sem núverandi ferli er tímafrekt og biðin eftir þinglýsingu er oft mikil.

Markmiðið er að allar þinglýsingar verði með rafrænu viðmóti, þannig að senda megi rafrænt inn gögn, hvort sem undirritun verður rafræn eða handvirk.  Stefnt er að því að 80% allra þinglýsinga verði afgreidd með sjálfvirkum hætti að hluta eða í heild.  Sá hluti þinglýsinga sem fer í handvirka vinnslu hefur farið í gegnum rafrænt ferli og aðeins hluti erindisins fer til þinglýsingarstjóra.

Umgjörð verkefnis

Stafrænt Ísland í samvinnu við dómsmálaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið setti á fót nýtt verkefni vorið 2020 sem er skipað þverfaglegum hópi sérfræðinga sem hefur það hlutverk að leysa tækni- og lagalegar hliðar þannig að hægt verði að þinglýsa rafrænt. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við sýslumenn og Þjóðskrá Íslands.

Verkefninu er skipt niður í fimm strauma:

 1. Greining og samskipti við hagsmunaaðila

 2. Hugbúnaðarþróun

  1. Vefþjónustur

  2. Sjálfsafgreiðsluvefur

 3. Kvaðayfirferð og undanfarar

 4. Lög um þinglýsingar og gjöld vegna þeirra

 5. Lög um veðskuldabréf 

Stýrihópur verkefnis fylgist með framgangi og er eigandi þess.  Hópurinn er skipaður aðilum frá fjármálaráðuneyti/Stafrænu Íslandi, dómsmálaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, sýslumönnum og Þjóðskrá Íslands.

Ferli rafrænna þinglýsinga

Til þess að þinglýsa rafrænt þarf að tengjast viðeigandi vefþjónustum eða nýta sjálfsafgreiðsluvef fyrir rafrænar þinglýsingar.  Gert er ráð fyrir að stórnotendur tengist beint við vefþjónustur og geti sent inn til þinglýsingar í gegnum sín kerfi (og/eða kerfi 3. aðila).  Þá er gert sjálfvirkt mat á því hvort færsla uppfylli skilyrði þinglýsingar og ef ekki, hvort hún eigi að fara í handvirka yfirferð hjá þinglýsingarstjóra eða vísað frá þinglýsingu. Sýslumenn fá yfirlit yfir sjálfvirkt þinglýstar færslur og einnig yfirlit yfir færslur sem þurfa að fara í handvirka yfirferð hjá þeim.  Handvirk yfirferð á sér stað ef eitthvað kemur fram í sjálfvirka matinu sem talið er ábótavant, s.s. ef vantar greiðslu, skráðar kvaðir eru á eign eða ef veðskuldabréf er óundirritað. 

Sjálfsafgreiðsluvefur verður til staðar á Ísland.is þar sem notendur geta rafrænt þinglýst færslum; bæði í eigin nafni og fyrir hönd 3. aðila. Hægt verður að sjá yfirlit yfir þinglýstar færslur og stöðu mála í vinnslu.

Til þess að tryggja öryggi og áreiðanleika verða allar lausnir teknar út af 3. aðila, í allri þróun verður tryggt að hægt verði að rekja færslur og aðgerðir ef þess þarf og gerðir verða samningar við stórnotendur áður en hægt er að tengjast vefþjónustum.

Yfirlit yfir ferli rafrænna þinglýsinga

*Heimildir: 

 • Þinglýsing rafrænna skjala, greiningarskýrsla 2010

 • Sýslumenn samanburður milli embætta, greiningarskýrsla frá Ríkisendurskoðun 2019

Efnisyfirlit