Fara beint í efnið

Löggilding rafverktaka

Einungis þau sem hlotið hafa löggildingu HMS sem rafverktaki mega bera ábyrgð á hvers konar vinnu við raflagnir (nýlagnir, breytingar og viðgerðir). Rafverktakar geta einnig borið ábyrgð á einstökum verkþáttum rafmagns í mannvirkjagerð. Löggiltir rafverktakar verða að starfa eftir skilgreindu öryggisstjórnunarkerfi til að tryggja að kröfum laga og reglugerða um gæði vinnu og öryggi búnaðar sé fullnægt.

Löggilding rafverktaka er tengd fyrirtækinu sem hann starfar hjá og staða hans verður að vera skilgreind innan fyrirtækisins. Að jafnaði skal aðeins einn löggiltur rafverktaki bera ábyrgð á hverju rafverktakafyrirtæki. Aðeins er heimilt að hafa fleiri en einn löggiltan rafverktaka ef verk- og ábyrgðarsvið þeirra eru skýrt aðgreind.

Hægt er að sækja um eftirfarandi löggildingar:

  • A-löggildingu

    fyrir rafvirkjunarstörf við háspennuvirki á almennum markaði, bæði fyrir rafverktöku í eigin nafni eða fyrirtæki. Fyrirtæki sem starfa við háspennuvirki verða að hafa starfsmann með A-löggildingu sem ber ábyrgð á vinnu við háspennuvirki í nafni fyrirtækisins.

  • B-löggildingu

    fyrir rafvirkjunarstörf við lágspennuvirki og til viðgerða á raftækjum á lágspennusviði á almennum markaði, bæði fyrir rafverktöku í eigin nafni eða fyrirtæki. Fyrirtæki sem starfa við lágspennuvirki eða annast viðgerðir á raftækjum á lágspennusviði verða að hafa starfsmann sem hlotið hefur B-löggildingu sem ber ábyrgð á vinnu við lágspennuvirki í nafni fyrirtækisins.

  • C-löggildingu,

    takmarkaða löggildingu til rafvirkjunarstarfa, annað hvort við háspennuvirki (CA) eða lágspennuvirki (CB), innan einstakra fyrirtækja eða stofnana sem ekki annast almenna rafverktöku eða viðgerðir á almennum markaði. Fyrirtækið sér rafverktaka fyrir búnaði og aðstöðu.

Sjá nánar um umsóknarferlið.