Fara beint í efnið

Gæðastjórnunarkerfi fagaðila í mannvirkjagerð

Fagaðilar í mannvirkjagerð (hönnuðir og hönnunarstjórar, byggingarstjórar, iðnmeistarar) sem ætla að taka að sér leyfisskyld verk verða að hafa samþykkt gæðastjórnunarkerfi. Þannig er tryggt að starfsemin sé samkvæmt opinberum kröfum, lögum og reglugerðum sem eykur öryggi, gæði og líkur á göllum minnka. Allir byggingarfulltrúar á landinu þurfa einnig að hafa samþykkt gæðastjórnunarkerfi.

Gæðastjórnunarkerfi þurfa ekki að vera flókin í uppbyggingu heldur krefjast fyrst og fremst utanumhalds um gögn, til dæmis:

  • staðfestingar á hæfni og endurmenntun

  • samskipti við tengda aðila

  • skrá yfir úttektir

  • verkskráningar

  • lýsingar á úttektum

  • innra eftirlit

Kerfið getur verið á pappírsformi en rafrænt kerfi gæti hentað betur, meðal annars vegna þess að rafrænt eftirlit er að færast í aukana.

Sjá nánar í leiðbeiningum fyrir fagaðila á byggingarmarkaði.

Skráning á gæðastjórnunarkerfi

Skráning á gæðastjórnunarkerfi

Þú sækir um skráningu á gæðastjórnunarkerfi á Mínum síðum HMS, undir Umsóknir > Gæðastjórnunarkerfi. Þar fyllir þú inn fyrir hvers konar starfsemi kerfið er, persónulegar upplýsingar og gögn um starfsréttindi. Ef þú hefur heimild fyrirtækis um notkun á gæðastjórnunarkerfi þess, skaltu fylla út viðeigandi reiti.

Næsta skref er að panta skjalaskoðun hjá faggiltri skoðunarstofu fyrir nýtt gæðastjórnunarkerfi. Þú getur einnig skráð samþykkt gæðastjórnunarkerfi fyrirtækisins sem þú vinnur hjá og þarft þá að panta virkniskoðun hjá skoðunarstofu.

Skoðunarstofur

Niðurstöður skoðunarinnar eru sendar með skýrslu til HMS. Ef hún er jákvæð er kerfið skráð á þig. Ef athugasemdir eru, eru þær flokkaðar eftir vægi og mögulegt er að þú þurfir að fá endurskoðun. Sjá nánar í niðurstöðum skoðunarskýrslu.

Verklagsreglur um skoðanir

Byggingarstjórar

Byggingarstjórar verða að öðlast starfsleyfi samhliða skráningu gæðastjórnunarkerfis.

Gæðastjórnunarkerfi byggingarstjóra þarf að fela í sér að minnsta kosti:

  • Staðfestingu á hæfni og endurmenntun byggingarstjóra.

  • Skrá um innra eftirlit byggingarstjóra vegna einstakra framkvæmda og lýsingu á því.

  • Skrá yfir móttekin hönnunargögn.

  • Skrá yfir leiðbeiningar og samskipti við byggingaryfirvöld og aðra eftirlitsaðila.

  • Skrá yfir iðnmeistara og þá verkþætti sem þeir bera ábyrgð á, afrit af ábyrgðaryfirlýsingum þeirra sem og athugasemdir við störf þeirra.

  • Skrá yfir áfangaúttektir og niðurstöður ásamt öryggisúttekt.

  • Skrá yfir hönnunarstjóra, hönnuði og athugasemdir til þeirra vegna hönnunargagna.

  • Skráningu á öðrum ákvörðunum og athugasemdum byggingarstjóra.

  • Lýsingu á lokaúttekt og undirbúningi hennar, þar sem gengið er frá skýrslu yfir allar úttektir, frágangi handbókar, þar á meðal lýsingu á verki og skrá um samþykkt hönnunargögn.

Leiðbeiningar

Iðnmeistarar

Iðnmeistarar þurfa að fá löggildingu áður en þeir sækja um skráningu gæðastjórnunarkerfis.

Gæðastjórnunarkerfi iðnmeistara þarf að fela í sér að minnsta kosti:

  • Staðfestingu á hæfni iðnmeistara.

  • Skrár yfir eigið innra eftirlit vegna einstakra verkþátta:

    • lýsingu á hvernig innra eftirliti með einstökum verkþáttum er sinnt

    • skrá yfir hönnunargögn, verklýsingar og önnur skrifleg fyrirmæli

    • skrá yfir úttektir og niðurstöður þeirra

    • skrá yfir athugasemdir og samskipti við byggingarstjóra vegna framkvæmdar

    • skráning á niðurstöðu innra eftirlits

  • Afrit af ábyrgðaryfirlýsingum sínum.

Leið­bein­ing­ar

Mannvirkjahönnuðir

Hönnuðir og hönnunarstjórar þurfa að fá löggildingu áður en þeir sækja um skráningu gæðastjórnunarkerfis. Í upphafi hvers leyfisskylds verks á hönnuður að skilgreina það innan síns gæðastjórnunarkerfis.

Gæðastjórnunarkerfi hönnuða þarf að fela í sér að minnsta kosti:

  • Staðfestingu á hæfni hönnuðar.

  • Skráningu á endurmenntun hönnuðar.

  • Skráningu á ákvörðunum hönnuðar vegna einstakra framkvæmda.

  • Lýsingu á innra eftirliti og skráningar í það.

  • Gátlista vegna innra eftirlits hönnuðar um samræmi hönnunargagna við reglur og staðla.

  • Skrá um útgefin hönnunargögn og uppdrætti sem lagðir hafa verið fram til samþykktar hjá leyfisveitanda og breytingar á þeim.

  • Skrá um allar breytingar á hönnunargögnum sem gerðar eru á framkvæmdatíma og leyfisveitandi hefur samþykkt.

  • Skrá um samskipti við byggingarstjóra og eftirlitsaðila, þar með talin skrifleg fyrirmæli.

  • Skrá um athugasemdir hönnunarstjóra, byggingarstjóra og iðnmeistara vegna hönnunargagna.

  • Skrá um leiðbeiningar og athugasemdir skoðunarstofu og leyfisveitanda vegna hönnunargagna.

  • Skrá um önnur samskipti og eigin athugasemdir hönnuðar vegna framkvæmdar.

Leið­bein­ing­ar

Virkniskoðun

Einu ári eftir skráningu gæðastjórnunarkerfis fer það í virkniskoðun. Eftir það er framkvæmd virkniskoðun á 5 ára fresti. Byggingarstjórar geta gert það samhliða endurnýjun starfsleyfis.

Ef engin virkni er til staðar mun skoðunarstofa eða vottunarstofa benda á að annað hvort þurfi að afskrá gæðastjórnunarkerfið eða fara aftur í virkniskoðun innan 6–12 mánaða. Ef niðurstaða seinni virkniskoðunar sýnir enga virkni verður kerfið afskráð.

ISO-vottuð gæðastjórnunarkerfi

Eftir breytingu laga um mannvirki 7. desember 2020 þurfa ISO 9001-vottuð gæðastjórnunarkerfi að fá virkniskoðun hjá vottaðri skoðunarstofu til að vera samþykkt.

Niðurstöður skoðunarskýrslu

Í skoðunarskýrslu frá viðkomandi skoðunarstofu geta komið fram athugasemdir í þremur flokkum.

Mannvirkjahönnuðir, hönnunarstjórar, byggingarstjórar og iðnmeistarar þurfa að vita hvaða vægi athugasemdir sem gerðar eru við úttektir á gæðastjórnunarkerfum þeirra hafa og hvernig þær eru flokkaðar.

Flokkun athugasemda

  1. flokkur: Athugasemd um galla ef gæðastjórnunarkerfi er áfátt en þó ekki á því stigi að þær falli undir 2. og 3. flokk.

  2. flokkur: Gæðastjórnunarkerfi er ekki samkvæmt settum reglum en ágallar þó ekki verulegir.

  3. flokkur: Verulegir ágallar eru á gæðastjórnunarkerfi. Ekki er hægt að staðfesta gerð eða virkni gæðastjórnunarkerfis sem fengið hefur athugasemdir í 3. flokki nema að undangenginni endurskoðun með staðfestingum á úrbótum.

Frestur til lagfæringa

  1. flokkur: Fagaðilar með gæðastjórnunarkerfi þar sem gerðar eru 5 eða fleiri athugasemdir í flokki 1 þurfa að láta endurskoða gæðastjórnunarkerfið hjá faggiltri skoðunarstofu eða vottunarstofu. Gefinn er 60 daga frestur til lagfæringa og endurskoðunar.

  2. flokkur: Fagaðilar með gæðastjórnunarkerfi þar sem gerðar eru 3 eða fleiri athugasemdir í flokki 2 þurfa að láta endurskoða gæðastjórnunarkerfið hjá faggiltri skoðunarstofu eða vottunarstofu. Gefinn er 60 daga frestur til lagfæringa og endurskoðunar.

  3. flokkur: Endurskoðunar er krafist vegna athugasemda í 3. flokki. Ekki er hægt að staðfesta gerð eða virkni gæðastjórnunarkerfis sem fengið hefur athugasemdir í 3. flokki nema að undangenginni endurskoðun með staðfestingum á úrbótum hjá faggiltri skoðunarstofu eða vottunarstofu. Gefinn er 60 daga frestur til lagfæringa og endurskoðunar.