Listamannalaun
Mat og úthlutun
Vinna tilgreind í umsókn er í forgrunni við mat umsókna. Við mat á umsóknum er notaður matskvarði umsókna sem umsækjandi þarf að kynna sér. Matskvarðinn endurspeglar það þar sem lýsing á vinnu- og tímaáætlun vegur 70% og ferill listamanns 30% (frávik í Vegsemd þar sem hlutföllin víxlast).
Í áherslum stjórnar listamannalauna eru atriði sem skipta máli við mat umsókna.
Ráðherra sem fer með menningarmál skipar árlega þriggja manna úthlutunarnefndir, eina fyrir hvern launasjóð, varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Úthlutunarnefndir vinna samkvæmt verklagsleiðbeiningum sem mótaðar hafa verið á síðustu árum í samráði við fagfélög listamanna og reynda formenn úthlutunarnefnda.
Ráðherra sem fer með menningarmál skipar árlega þriggja manna úthlutunarnefndir, eina fyrir hvern launasjóð, varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Skipun er samkvæmt tilnefningu eftirtalinna:
Launasjóður hönnuða: Hönnunarmiðstöð Íslands
Launasjóður myndlistarmanna: Samband íslenskra myndlistarmanna
Launasjóður rithöfunda: Rithöfundasamband Íslands
Launasjóður sviðslistafólks: Sviðslistasamband Íslands
Launasjóður tónlistarflytjenda: Félag íslenskra hljómlistarmanna og Félag íslenskra tónlistarmanna
Launasjóður tónskálda: Tónskáldafélag Íslands og Félag tónskálda og textahöfunda
Launasjóður kvikmyndahöfunda: Samtök kvikmyndaleikstjóra og Félag leikskálda og handritshöfunda.
Úthlutunarnefndir eru skipaðar til eins árs í senn, en lögum samkvæmt er ekki unnt að skipa sama einstakling lengur en þrjú ár í röð til setu í úthlutunarnefnd. Nöfn nefndarmanna eru birt í tilkynningu um úthlutun.
Hjá öllum úthlutunarnefndum liggja skýr og ákveðin sjónarmið til grundvallar mati á umsóknum. Um er að ræða vinnuskjal, þar sem tekið er tillit til fyrirliggjandi verkefna, ferils umsækjanda og verkáætlunar. Með þessi atriði að leiðarljósi eru allar umsóknir vegnar og metnar.
Úthlutanir úr launasjóðum listamanna eru endanlegar á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru til ráðherra (sjá 14. gr. laga um listamannalaun nr. 57/2009). Einnig má benda á að skv. 3. tölul. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ber stjórnvaldi ekki að veita rökstuðning þegar um er að ræða úthlutun styrkja á sviði lista, menningar eða vísinda.
Þjónustuaðili
Rannsóknamiðstöð Íslands