Listamannalaun
Áherslur stjórnar listamannalauna
Stefna og áhersla stjórnar Listamannalauna 2026-2028
Listamannalaun – laun fyrir listsköpun
Listsköpun almennt í forgrunni en ferill í Vegsemd.
Stjórn listamannalauna leggur áherslu á að vinna tilgreind í umsókn um starfslaun sé í forgrunni við mat á umsóknum. Matskvarðinn sem notaður verður við 2026 úthlutun endurspeglar þá áherslu þar sem lýsing á vinnu- og tímaáætlun vegur 70% og ferill listamanns 30% (frávik í Vegsemd).
Matskvarðinn er birtur á síðu sjóðsins og vísað er til hans í umsókn.
Listamannalaun eru greidd listamönnum til að stunda listsköpun.
Fjölbreytni
Stjórn listamannalauna leggur áherslu á að úthlutanir endurspegli þá fjölbreyttu flóru listsköpunar sem blómstrar á hverjum tíma. Stjórn leggur enn fremur áherslu á að við úthlutun sé horft til þátta sem endurspegla fjölbreytni listafólks í landinu, nýliðun á fagvettvangi, kynjadreifingu og búsetudreifingu.
Vegsemd
Er fyrir starfandi listamenn, 67 ára og eldri, sem hafa varið starfsævi sinni til listsköpunar og skarað fram úr á sínu sviði. Umsækjandi sækir um í fagsjóð en umsóknarkerfi tilgreinir að umsókn geti, út frá aldri, fallið undir Vegsemd. Vægi ferils er 70% í mati Vegsemdar-umsókna. Umsækjendur, 67 ára og eldri, geta valið að umsókn þeirra falli ekki undir Vegsemd.
Nýliðun
Nýliðar teljast þeir sem hafa aldrei fengið listamannalaun áður og þeir sem aðeins hafa fengið einu sinni þrjá mánuði úr launasjóðnum. Áhersla á nýliðun fer stigvaxandi næstu ár og eykst árið 2026 úr 7% í 8%, árið 2027 í 9% og árið 2028 í 10%.
Einstaklingsumsóknir og ein umsókn í launasjóð
Umsóknir eru einstaklingsumsóknir en hægt er að vísa til samstarfs við aðra umsækjendur ef við á.
Umsækjandi getur bara sent eina umsókn í launasjóð og tilgreinir í henni alla þá fyrirhuguðu vinnu sem gæti fallið undir sjóðinn. Berist fleiri en ein umsókn frá umsækjanda í sama launasjóð gildir sú nýjasta.
Umsækjendur sem sækja um laun úr fleiri en einum launasjóði
Sæki umsækjandi um listamannalaun úr fleiri en einum sjóði, þarf að stofna og senda sjálfstæða umsókn fyrir hvern sjóð. Tilgreina þarf í umsókn ef sótt er í aðra sjóði.
Launasjóður sviðslistafólks og styrkir úr Sviðslistasjóði
Umsóknir í Sviðslistasjóð geta jafnframt gilt sem umsóknir til listamannalauna, þ.e. í launasjóð sviðslistafólks. Atvinnusviðslistahópur sem hyggst sækja um styrk í Sviðslistasjóð og um listamannalaun gerir það í gegnum umsóknarform Sviðslistasjóðs.
Staðlaður ákvörðunartexti í svarbréfi
Í svarbréfum til umsækjenda kemur fram staðlaður ákvörðunartexti (ekki umsögn/endurgjöf). Þeir stöðluðu ákvörðunartextar sem notaðir eru í svörum eru birtir á síðu sjóðsins.
Sýnileiki listamannalauna
Launþegum sjóðsins ber að geta þess við birtingu umsóknaverka sinna að þeir hafi notið listamannalauna.
Stjórn listamannalauna
Ráðherra sem fer með menningarmál skipar þrjá einstaklinga í stjórn listamannalauna til þriggja ára í senn, einn samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra listamanna, einn samkvæmt tilnefningu Listaháskóla Íslands og einn án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi aðalmanna. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórn listamannalauna lengur en tvö samfelld starfstímabil.
Núverandi stjórn listamannalauna er skipuð til 31. maí 2027.
Stjórn listamannalauna skipa eftirtalin:
Jónatan Garðarsson formaður, skipaður án tilnefningar
Kolbrún Ýr Einarsdóttir, tilnefnd af Bandalagi íslenskra listamanna
Eva María Árnadóttir tilnefnd af Listaháskóla Íslands
Varamenn eru:
Elísabet Indra Ragnarsdóttir skipuð án tilnefningar
Erling Jóhannesson tilnefndur af Bandalagi íslenskra listamanna
Kristín Eysteins tilnefnd af Listaháskóla Íslands
Þjónustuaðili
Rannsóknamiðstöð Íslands