Kvaðaarfur, arfur sem er bundinn ákveðnum skilyrðum
Sá sem lætur eftir sig arf getur gefið fyrirmæli eða lagt kvaðir á meðferð arfsins. Þetta gildir þó ekki um arf til skylduerfingja nema að 1/3 hluta. Skylduerfingjar eru maki og niðjar.
Ef talin er hætt á að skylduerfingi muni fara illa eða ráðleysislega með arf sinn, t.d. vegna andlegra annmarka, eða af öðrum ástæðum, er þó hægt að óska eftir því að sérstök skilyrði eða kvaðir verði lagðar á meðferð arfsins. Kvaðir verða ekki lagðar á skylduarf nema ríkar ástæður séu fyrir hendi og sýna þarf fram á þær með framlögðum gögnum, eins og t.d. læknisfræðilegum gögnum. Kvaðir sem lagðar eru á arf, falla niður við andlát erfingja og beinast ekki að niðjum hans.
Skilyrði
Skilyrðin geta til dæmis verið að
settur sé fjárhaldsmaður yfir arfinum
að erfingjanum verði greidd ákveðin upphæð af arfinum með vissu millibili
að arfinum megi aðeins ráðstafa til kaupa á fasteign, greiðslu á leigu og svo framvegis
Þessi skilyrði verða aðeins gild ef sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra samþykkir þau. Senda þarf embættinu yfirlit yfir þær kvaðir sem ætlað er að leggja á arfinn og rökstyðja ástæður þess að kvaðir verði lagðar á hann.
Niðurfelling kvaðar
Sýslumanni er heimilt að fella niður kvaðir á arfi að nokkru eða öllu leyti þegar erfingi hefur náð 21 árs aldri og getur sýnt fram á að skilyrði kvaðarinnar séu ekki lengur fyrir hendi. Viðkomandi erfingi þarf þá að óska eftir því við sýslumanninn á Norðurlandi eystra að kvaðir verði felldar niður og leggja fram þau gögn sem til þarf.
Hægt er að kæra ákvörðun sýslumanns til dómsmálaráðuneytisins innan þriggja mánaða fá ákvörðuninni.
Þjónustuaðili
Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra