Sumarið gengur rólega í garð á Tunguheiði í upplöndum Bláskógabyggðar. Gróður er þar seinn á ferðinni eins og víða annars staðar, ekki síst til heiða og fjalla. Uppgræðsluaðgerðum sem hófust á heiðinni 1997 er að mestu lokið en borið verður á valin svæði þar í sumar. Síðan verður landið afhent eigendum á ný, sem er harla sjaldgæfur viðburður þegar uppgræðslusvæði eru annars vegar.