26. september 2024
26. september 2024
Elsta tré Íslands á Vísindavöku 2024
Land og skógur tekur þátt í Vísindavöku Rannís sem fram fer í Laugardalshöll í Reykjavík laugardaginn 28. september. Þar verður hægt að skoða pöddur, laufblöð og fræ í víðsjá, þreifa á mismunandi jarðvegi, sjá drónamyndir af gróðurframvindu á Hekluskógasvæðinu og taka þátt í verðlaunagetraun. Sömuleiðis verður til sýnis sneið með árhringjum úr elsta tré sem fundist hefur á Íslandi og er um 280 ára gamalt.
Á Vísindavöku stendur almenningi til boða sannkölluð vísindaveisla þar sem okkar fremsta vísindafólk sýnir og segir frá rannsóknum og nýsköpun á lifandi og gagnvirkan hátt. Rannís skipuleggur Vísindavöku á Íslandi í samstarfi við íslenska háskóla og stofnanir en hún er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu síðustu helgina í september undir heitinu Researchers' Night.
Þetta er fyrsta Vísindavakan í sögu hinnar nýju stofnunar, Lands og skógar. Svið rannsókna og þróunar sér um bás stofnunarinnar að þessu sinni og þar kennir ýmissa grasa í orðsins fyllstu merkingu. Hægt verður að skoða í víðsjá fræ helstu grastegunda sem notaðar eru við landgræðslu á Íslandi, allt frá túnvingli upp í melgresi.
Í víðsjánni verður líka hægt að skoða laufblöð af trjátegundum og pöddur sem lifa á trjám og landgræðsluplöntum. Pöddurnar verða jafnvel lifandi! Mismunandi jarðvegssýni verða til sýnis, allt frá sandi yfir í skógarjarðveg og geta gestir fengið að þreifa á sýnunum. Í básnum verður gína með geispu og bakka af skógarplöntum í gervi gróðursetningarmanns sem er tilbúinn í slaginn að rækta nýjan skóg.
Dróni sem notaður hefur verið til að mynda uppgræðslusvæði, til dæmis Hekluskógasvæðið, verður hengdur upp í básnum og á skjá verða sýndar myndir úr slíkum myndatökuferðum þar sem vel sést hvernig Hekluskógasvæðið er smám saman að breytast úr eyðimörk í birkiskóg. Svo verður líka hægt að kynna sér Skógarkolefnisreikni sem nota má til að spá fyrir um vöxt og bindingu á skógræktarsvæðum.
Síðast en ekki síst geta gestir í bás Lands og skógar á Vísindavöku skoðað árhringi nokkurra trjátegunda og þar stendur upp úr elsta tré Íslands, sem reyndar er ekki mjög hátt og stendur ekki upp úr í þeim skilningi. Ekkert tré skákar því þó í aldri því þetta umrædda tré er um 280 ára gamalt!
Verið velkomin í bás Lands og skógar á Vísindavöku 2024! Þar taka vel á móti ykkur sérfræðingarnir Anne Bau, Bjarki Þór Kjartansson, Helena Marta Stefánsdóttir og Magnús Jóhannsson.
Gleðilega Vísindavöku!