Fara beint í efnið

9. september 2024

Ráðist gegn rofabörðunum

Dreifing á heyi og öðrum lífrænum efnum hefur gefið góða raun við að græða upp rofabörð. Dæmi um góðan árangur má sjá á jörðinni Heiðarási í Þingvallasveit sem notið hefur styrks frá Landbótasjóði til uppgræðslustarfsins.

Kolbeinn frá Heiðarási og Jóhannes frá Heiðarbæ standa í rofabarði sem brotið hefur verið niður og dreift úr heyrúllum í. Ljósmynd: Garðar Þorfinnsson

Kolbeinn Sveinbjörnsson á Heiðarási í Þingvallasveit er einn margra sem fengu styrk úr Landbótasjóði fyrr á þessu ári. Styrkinn nýtir hann til að græða upp rofabörð og lítt gróna mela.

Til að græða upp rofabörðin var byrjað á því að brjóta bakkann á börðunum niður með lítilli beltavél og að því loknu var heyi mokað á börðin með höndum. Sú aðferð hefur reynst vel til að hindra frostlyftingu sem annars tefur fyrir því að opnar moldir grói. Heyið var fengið af gömlu túni sem var slegið sérstaklega í þetta verk. Mikill mosi var í heyinu sem sést nú greinilega í börðunum.

Heyið hamlar frostlyftingu og flýtir fyrir því að gróður dreifist í sárin. Ljósmynd Garðar Þorfinnsson

Að dreifa heyrúllum eða öðru lífrænu efni í rofabörð er aðferð sem notuð hefur verið lengi og gefur góða raun. Auk þess var tilbúnum áburði og grasfræi dreift í rofabörðin og svæðið fyrir neðan þau. Á efstu myndinni má sá Kolbein og Jóhannes bróður hans sem býr í Heiðarbæ í Þingvallasveit standa í rofabarði sem heyi hefur verið dreift í.

Mjög áhugavert verður að fylgjast með framvindu í á þessum börðum á næstu árum og fróðlegt að sjá hvort mosinn nær að koma sér fyrir og gróa í rofabarðinu.

Garðar Þorfinnsson, héraðsfulltrúi Lands og skógar á Suðurlandi, skoðaði aðgerðirnar 29. ágúst í blíðskaparveðri ásamt bræðrunum Kolbeini og Jóhannesi. Þeir bræður hafa unnið mikið saman að uppgræðslu á jörðum sínum ásamt fjölskyldum sínum.