Fara beint í efnið

8. september 2024

Tartu-yfirlýsingin um nýju evrópsku náttúruverndarlöggjöfina

Með Tartu-yfirlýsingunni SRE2024, sem gefin var út nýverið á fjórtándu Evrópuráðstefnunni um endurheimt vistkerfa, er áhersla lögð á nauðsyn þess að koma fljótt í framkvæmd þeirri nýju löggjöf Evrópusambandsins um endurheimt náttúrunnar sem samþykkt var 18. ágúst. Í yfirlýsingunni er athygli beint að ómissandi hlutverki endurheimtar náttúru í baráttunni við loftslagsbreytingar og hnignandi fjölbreytni lífríkis. Endurheimt vistkerfa sé grunnforsenda fyrir velferð komandi kynslóða Evrópubúa.

SERE2024

Ráðstefna Evrópudeildar SER-vistheimtarsamtakanna (SER Europe) fór fram í Tartu í Eistlandi í lok ágúst. Sjö fulltrúar frá Landi og skógi sóttu ráðstefnuna en alls voru fulltrúar frá Íslandi sautján talsins. Ráðstefnan þóttist takast sérlega vel, sem sást best á því að þátttakendur hafa aldrei verið fleiri.

Í Tartu-yfirlýsingunni eru tíunduð sjö atriði sem eru talin skipta sköpum um að innleiðing hinnar nýju evrópsku náttúruverndarlöggjafar takist vel. Lögð er áhersla á að aðgerðir verði hafnar strax og byggt verði á þeirri vísindalegu þekkingu sem þegar er til staðar svo endurheimtarverkefni í vistkerfum víðs vegar um Evrópu geti hafist. Áreiðanleg langtímafjármögnun sé líka mjög mikilvægt atriði og stofnun sérstaks sjóðs á vegum Evrópusambandsins um vernd líffjölbreytni og endurheimt algert lykilatriði. Slíkur sjóður sé forsendan fyrir því að afla megi fjármagns úr einkageiranum einnig.

Jafnframt er í yfirlýsingunni lögð mikil áhersla á víðtæka miðlun upplýsinga og að hagsmunaaðilar verði virkjaðir í starfinu. Talað er fyrir því að verkefni verði skipulögð úr grasrótinni frekar en að allt sé skipulagt ofan frá og að stuðlað verði að því að til verði öflug endurheimtarmenning meðal fólks. Hvatt er til þess einnig að löndin setji sér endurheimtaráætlanir byggðar á vísindalegum grunni og að þar verði virk samvinna stjórnsýslu- og stjórnmálafólks við vísindafólk og fagfólk. Loks er í yfirlýsingunni gerð krafa um vandaða vöktun, skýrslugerð og eftirfylgni til að tryggja að markmiðin með nýju löggjöfinni náist. Þar verði gagnsæi haft að leiðarljósi ásamt virkri þátttöku almennings í vísindalegu starfi.

Tartu-yfirlýsingin hlaut atkvæði 674 þátttakenda á 47 löndum. Það þykir endurspegla eindrægni í hópi þátttakenda á ráðstefnunni og samstöðu um nauðsyn einbeittra aðgerða með því markmiði að endurheimta og vernda náttúruarf Evrópu.