17. september 2024
17. september 2024
Yfir 400 ára gamalt starfsheiti
Hópur sænskra skógfræðinema á öðru ári við sænska landbúnaðarháskólann SLU í Umeå hefur verið á ferð hér á landi síðustu daga og skoðað skóga og skógrækt. Nemarnir læra ýmsar hliðar skógræktar, úrvinnslu og umhirðu skóga og hljóta gráðuna jägermästare sem samsvarar gráðu skógfræðings á Íslandi en á sér margra alda rætur.
Björn Bjarndal Jónsson, skógfræðingur og formaður Félags skógarbænda á Suðurlandi, skipulagði heimsókn sænsku nemanna og fylgdi hópnum hér. Meðal annars kynnti hann þeim starfsemi Lands og skógar. Þau heimsóttu til dæmis skrifstofu Lands og skógar á Selfossi þar sem starfsfólk flutti fyrirlestra um hlutverk og verkefni stofnunarinnar.
Hópurinn var ánægður með móttökurnar og leist vel á íslenska skóga og hvernig hægt væri að breyta berangri í blómlega skóga á örfáum áratugum. Á myndinni að neðan sést Úlfur Óskarsson, skógfræðingur og verkefnastjóri kolefnismála hjá Landi og skógi, fræða nemana um kolefnisbindingarverkefni. Efri myndin var tekin af nemendahópnum í Svartagilshvammi í Haukadalsskógi. Myndirnar tók Björn Bjarndal Jónsson.
Starfsheitið jägmästare þýðir strangt tiltekið veiðimeistari eða veiðistjóri. Það á sér yfir fjögur hundruð ára gamla hefð. Fyrstu heimildir um þetta starfsheiti eru frá veldistíð Jóhanns þriðja Svíakonungs um 1580. Eins og orðið ber með sér vísar það til veiðiskapar enda var meginhlutverk veiðistjórans upphaflega að hirða um og gæta veiðilendna konungs. Nú orðið er veiðiskapur ekki lengur meginþáttur í starfi fólks sem ber þennan titil heldur sérfræðistörf sem tengjast skógum og skógrækt.
Nám sem gefur fólki réttindi til að titla sig jägmästare hefur verið í boði í Svíþjóð frá árinu 1828. Til inngöngu var þess lengi vel krafist að fólk hefði lokið herþjónustu og gæti sýnt fram á starfsreynslu í skógarvinnu. Það útilokaði konur frá inngöngu allt fram til 1962 þegar fyrsta konan fékk undanþágu frá herskyldukröfunni. Enn eru konur í minnihluta í þessu námi en þó hafa hlutföllin jafnast mjög því nú eru þær um fjörutíu prósent nemenda. Í hópnum sem heimsótti Ísland að þessu sinni voru sex konur og tíu karlar sem er nálægt þessu hlutfalli.
Land og skógur þakkar þessum góðu gestum fyrir komuna og óskar þeim velgengni í starfi.