1. október 2024
1. október 2024
Ánamaðkur skaut upp kolli á Vísindavöku
Örtröð var í bás Lands og skógar strax og Laugardalshöllin var opnuð gestum Vísindavöku á laugadaginn var. Börn í fylgd foreldra sinna voru uppistaðan í hópi gesta og bæði börn og fullorðnir sýndu því sem Land og skógur hafði að bjóða mikinn áhuga. Miklar umræður sköpuðust og mikið spurt.
Vísindavaka 2024 sem fram fór á laugardag var mjög vel sótt. Gestir í bás Lands og skógar fræddust um landgræðslu og skógrækt hjá sérfræðingum stofnunarinnar, þeim Anne Bau, Bjarka Þór Kjartanssyni, Helenu Mörtu Stefánsdóttur og Magnúsi Jóhannssyni. Magnús fór á kostum við að fræða fólk um hvernig landið blés upp, gróðurinn hvarf og moldin með. Gestir gátu handleikið jarðveg, allt frá sandi upp í frjósama mold, meðan Magnús talaði um að stór hluti af Íslandi væri svona (sandur) sem þyrfti að breyta í svona (gróið land). Á sýnum sem sýnd voru mátti sjá framvindu uppgræðslustarfs í sextíu ár úr eyðimörk í gróið land.
Verðmæti í kúk og pissi
Til sýnis var líka seyra, ókræsilegt jukk í gleríláti. „Seyra. Hvað er nú það?“ spurðu gestirnir og fengu einfalda svarið „kúkur og piss“ en síðan útskýringu á því hversu mikla næringu væri að finna úrganginum sem kemur frá okkur sjálfum og í ýmiss konar öðrum lífrænum úrgangi sem að mestu leyti er hent en væri hægt að nota til að bæta landið. Til samanburðar var ílát með innfluttum tilbúnum áburði sem er framleiddur á orkufrekan hátt, gjarnan með kolum og olíu.
Elsta tré á Íslandi var líka til sýnis ásamt stórri skífu af 50 ára gamalli ösp. Stóra tréð var ekki elsta tréð á íslandi eins og gestir ályktuðu skiljanlega af asparskífunni, Nei, elsta tréð var litla tréð sem ekki var hægt að telja árhringina á nema með hjálp víðsjárinnar, um 280 ára gamall einir af Hólasandi.
Bjarki Þór og Helena Marta sýndu hvernig hægt er að áætla vöxt og kolefnisbindingu skógar með Skógarkolefnisreikni. Þau fræddu líka um ýmislegt í vistkerfinu svo sem sveppi, skordýr og fleira, aðstoðuðu við að telja árhringi í trjám, skoða pöddur og fræ í víðsjá og í básnum voru líka lifandi skógarplöntur ásamt geispu og öðrum búnaði til skógræktar.
184.788 birkifræ
Anne Bau kom með fræ sem voru til sýnis í básnum. Sérlega mikla athygli vakti stærðarmunurinn á birkifræi og melgresisfræi þegar slík fræ voru sett undir víðsjána og myndinni varpað upp á skjá. Út frá því spunnust umræður um hvernig fræin virka, hversu mikla orku þau geymi í sér og hvað þau þurfi til að spíra svo upp vaxi plöntur.
Allt þetta varð til þess að í bás Lands og skógar á Vísindavöku varð til lifandi smiðja þar sem uppvaxandi kynslóðir gátu gerst rannsakendur um stund og skoðað fyrirbæri úr náttúrunni með því að snerta, sjá og finna. Óvæntir hlutir gerðust líka, til dæmis þegar sprækur ánamaðkur kom í ljós í torfu sem tekin hafði verið í Gunnlaugsskógi.
Getraun var líka í gangi þar sem fólk gat giskað á fjölda birki- og melgresisfræja sem þarna voru í krukkum. Til samanburðar voru sýnd hundrað birkifræ og hundrað melgresisfræ. Réttur fjöldi var fræja var 7.421 melgresisfræ og 184.788 birkifræ. 118 gestir tóku þátt í getraununni og var það Prezemek Madej sem komst næst réttu svari. Hann giskaði á 10.000 melgresisfræ og 200.000 birkifræ. Haft verður samband við vinningshafa fljótlega.
Land og skógur þakkar öllum sem komu við í básnum á Vísindavökunni kærlega fyrir komuna. Sjáumst að ári!