Fara beint í efnið

4. september 2024

Af pöddum og óvinum þeirra

Einn þeirra skaðvalda sem hafa sótt í sig veðrið hérlendis síðustu árin er lítil bjalla með gljáandi koparlitan skjöld sem herjar á ýmsar tegundir af víðiættkvíslinni, til dæmis alaskaösp. Sérstaklega er hún þó sólgin í gulvíði og viðju sem orðið hafa illa fyrir barðinu á henni á Suðurlandi undanfarin ár. Nú síðsumars hafa í fyrsta sinn sést gulvíði- og viðjubrúskar á Akureyri brúnir af völdum asparglyttu. Skemmdir vegna birkikembu og birkiþélu virðast með minna móti syðra þetta árið. Hugsanlegt er að nýr óvinur birkiþélu sé farinn að gera þar gagn. Hvaða skemmdir hefur þú séð í sumar? Láttu okkur vita!

Púpa sníkjuvespu sem nærist á lirfum birkiþélu. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Sérfræðingar Lands og skógar um skaðvalda, Brynja Hrafnkelsdóttir og Helga Ösp Jónsdóttir, safna nú upplýsingum um hvers kyns skemmdir á trjám og runnum um allt land, hvort sem skemmdirnar eru af völdum skordýra, sveppsjúkdóma eða annarrar óværu, en einnig skemmdir vegna stórviðra, hrets eins og þess sem reið yfir landið í byrjun júní eða annarra áfalla. Upplýsingar má senda á netföng þeirra, brynja.hrafnkelsdottir@landogskogur.is, og helga.o.jonsdottir@landogskogur.is.

Asparglytta

Nokkuð hefur borist af upplýsingum um asparglyttu sem hefur verið að breiðast út um landið undanfarin ár. Í fyrrasumar voru skemmdir vegna hennar nokkuð áberandi á gulvíði í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu að sögn Þorbergs Hjalta Jónssonar, sérfræðings hjá Landi og skógi, sem þar býr. Í í sumar segir hann að sömu gulvíðibrúskar standi nú grænir og fallegir og engin ummerki um asparglyttuna. Aftur á móti hafa nú í sumar í fyrsta sinn sést áberandi skemmdir vegna asparglyttu á Akureyri. Gulvíðibrúskar við Drottningarbraut eru orðnir alveg brúnir eins og þessi mynd sýnir sem tekin var síðla ágústmánaðar.

Gulvíðir við Drottningarbraut á Akureyri brúnn af asparglyttu í ágúst 2024. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Þessi munur á sumrinu í ár og í fyrra vekur nokkra furðu. Ein möguleg skýring sem nefnd hefur verið er að hretið sem gekk yfir landið snemma í júní hafi komið harðar niður í Reykjadal en á Akureyri og orðið til þess að asparglyttan hefur ekki náð sé á strik í Reykjadal þetta sumarið. Þá ber líka að geta þess að skortítutegundin trjónutíta hefur reynst vera sólgin í asparglyttulirfur og egg og gæti átt þátt í að slá á áhrif asparglyttunnar. Trjónutíta fannst fyrst hérlendis árið 2007 og hefur fundist víða á höfuðborgarsvæðinu og á nokkrum stöðum á Norðurlandi undanfarin ár. Tilkoma trjónutítunnar er þeim mun gleðilegri fyrir þær sakir að lirfur asparglyttunnar framleiða eiturefni sem fæla frá flesta mögulega afræningja. Til dæmis er ekki vitað til þess að fuglar hafi komist upp á lag með að nærast á asparglyttu, hvorki lirfum hennar né bjöllum. Hér fyrir neðan er mynd af trjónutítu sem fannst á Akureyri í ágúst.

Trjónutíta sem fannst á Akureyri í ágúst 2024. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Ryð

Annar munur sem sést á skaðvöldum norðanlands þetta sumarið er ryðsveppur á ösp en líka á birki. Lítil merki hafa til dæmis sést um asparryð á Akureyri og nágrenni fram undir þetta og lítið ber á birkiryði enn, þrátt fyrir að úrkomusamt hafi verið bæði í júní og ágúst. Hvað varðar asparryðið hefur sá sveppur lerki sem millihýsil og vera kann að hretið fyrri hluta júnímánaðar ásamt lágu hitastigi almennt í júní hafi truflað lífsferil hans og orðið til þess að hann hefur ekki náð sér á strik í sumar nyrðra. Eitthvað hefur frést af ryði á Austurlandi og gott væri að fá frekari fregnir hvaðanæva af landinu.

Skaðvaldar á lúpínu

Af Suðurlandi berast þau tíðindi að allir þeir þrír skaðvaldar sem herjað hafi á lúpínu séu nú á kreiki. Laust fyrir aldamótin komust þessar tegundir upp á lag með að nærast á lúpínu. Þetta eru allt saman innlendar skordýrategundir sem hafa verið lengi á Íslandi, skógbursti, ertuygla og mófeti. Ertuygla og skógbursti voru lengi einungis á Suðurlandi en útbreiðslusvæði þeirra og stofnstærð hefur aukist undanfarna áratugi. Þorsteinn Kristinsson, sérfræðingur í upplýsingatækni hjá Landi og skógi með starfstöð í Gunnarsholti, sá alla þessa þrjá skaðvalda á sömu lúpínunni og sendi meðfylgjandi myndir hér að neðan. Brynja Hrafnkelsdóttir segir að öllum þremur hafi farið fjölgandi á lúpínunni frá aldamótum. Brynja hefur einmitt rannsakað þessi kvikindi, sérstaklega ertuygluna, og varði árið 2020 doktorsritgerð um samspil milli innlendra beitarskordýra, innfluttra plantna og loftslagsbreytinga á Íslandi.

Ertuygla til vinstri og skógbursti til hægri á sömu lúpínuplöntunni á Suðurlandi í ágúst 2024. Ljósmynd: Þorsteinn Kristinsson
Lirfur mófeta og skógbursta á sömu lúpínuplöntunni og á efri myndinni. Ljósmynd: Þorsteinn Kristinsson

Er birkið að ná sér?

Dæmi um skaðvalda sem hafa verið að breiðast út um landið eru nýir landnemar sem herja á birki, birkikemba og birkiþéla. Báðar þessar tegundir verpa eggjum sínum í laufblöð birkisins og lirfur þeirra alast því upp innan í laufblöðunum og eru því óaðgengilegar fyrir fugla og marga aðra afræningja sem gætu nærst á þeim. Gleðifréttir bárust þó í fyrra þegar fannst sníkjuvespa á suðvesturhorninu sem étur lirfur birkiþélu. Gaman er að flytja hér þau jákvæðu tíðindi að þessi náttúrlegi óvinur þélunnar hefur nú fundist einnig í Eyjafirði svo hann virðist vera að breiðast út um landið. Púpu þessarar sníkjuvespu má sjá á myndinni efst í fréttinni sem tekin var á Akureyri í ágúst. Þótt of snemmt sé að fullyrða um ástæðurnar virðast nú heldur minni skemmdir vera á birki suðvestanlands en verið hefur undanfarin ár af völdum birkikembu og birkiþélu. Skemmdir eru hins vegar miklar á Akureyri og nágrenni þetta sumarið. Brynja og Helga Ösp telja að betra ástand syðra nú í sumar geti bent til þess að farið sé að létta þeim smitþrýstingi sem gjarnan fylgir nýjum skaðvöldum fyrstu árin. Hins vegar geti einnig verið að hinn nýi óvinur þessara skaðvalda sé farinn að slá á þá syðra og það sama eigi eftir að gerast nyrðra líka.

Upplýsingar óskast ...

... um skaðvalda

Af öðrum skaðvöldum óska þær Brynja og Helga Ösp frekari frétta og biðja fólk að senda inn upplýsingar um hvers kyns skemmdir sem vart verður við, sér í lagi á trjám og runnum en einnig er forvitnilegt að fá upplýsingar um skemmdir á öðrum gróðri í sumar.

... um fræþroska á trjám

Þá er sömuleiðis verið að safna gögnum um fræþroska á trjátegundum. Fram undan er árleg landssöfnun á birkifræi en einnig verður safnað fræi af greni og furu til sáningar í trjáplöntustöðvum, jafnvel lerkifræi ef það finnst og mögulega fleiri tegundum. Allar fréttir um trjáfræ eru því vel þegnar.