Farsæld og velferð barna
Samþætting þjónustu
Með samþættri þjónustu er skipulega unnið að því að þjónusta barn og foreldra, með hag barnsins að leiðarljósi. Það er gert með því að koma á samstarfi foreldra, barns og þeirra aðila sem geta komið að lausn vandans. Allir aðilar bera ábyrgð á sínu framlagi.
Lög um samþættingu þjónustu ná til allra sem vinna með börnum; bæði til opinberra aðila og annarra í skipulögðu starfi með börn.
Aðilar sem þjónusta börn
Í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna eru þeir aðilar sem vinna með börnum flokkaðir í tvo hópa:
Þjónustuveitendur eru þeir sem veita þjónustu tengda farsæld barna hjá ríki eða sveitarfélögum, eða fyrir hönd þeirra.
Dæmi um þjónustuveitendur eru starfsfólk leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila, félagsmiðstöðva, framhaldsskóla, heilsugæslu, sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu, lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndarþjónustu.
Hins vegar annað skipulagt starf sem tengist farsæld barna, kallað almenn þjónusta.
Dæmi um veitendur almennrar þjónustu eru sjálfstætt starfandi sérfræðingar, íþrótta-, lista- og æskulýðsstarf og starfsemi frjálsra félaga- og hagsmunasamtaka.
Á öllum þessum aðilum hvílir meðal annars samkvæmt farsældarlögunum sú skylda að fylgjast með velferð og farsæld barns.
Þau geta aðstoðað foreldra við komast í samband við tengilið farsældar. Hægt er að að fylla út beiðni um miðlun upplýsinga til tengiliðar eða málstjóra, sem þýðir að viðkomandi hefur þá heimild til að upplýsa tengilið farsældar um aðstæður barnsins og ósk þess eða foreldra þess um samtal. Tengiliður hefur ekki heimild til að hafa samband við aðra en foreldra og/eða barn þegar hann hefur móttekið upplýsingarnar.
Foreldrum og/eða barni getur einnig verið leiðbeint um að hafa hafa beint samband við tengilið farsældar.
Tilgangur laganna um samþætta þjónustu er að börn og foreldrar séu ekki send á milli ólíkra þjónustuaðila. Þess í stað aðstoðar tengiliður farsældar þau við að sækja rétta þjónustu án hindrana.
Foreldrar og/eða barn óska eftir samþættri þjónustu áður en tengiliður hefur samband við þá aðila sem geta komið að lausn vandans.
Mismunandi þarfir barna
Börn hafa ólíkar þarfir fyrir stuðning og þjónustu.
Markmiðið er að börn fái rétta þjónustu á réttum tíma, og þannig þurfi færri börn umfangsmeiri þjónustu síðar á lífsleiðinni.
Dæmi um úrræði raðað eftir þjónustuþörf:
Grunnþjónusta aðgengileg öllum börnum; til dæmis meðgöngueftirlit, bólusetningar, forvarnir og aðgerðir sem styðja við jákvæðan skólabrag og þjónusta sem kemur efnaminni fjölskyldum til góða.
Snemmtækur stuðningur við barn með vægan vanda; til dæmis vegna námsörðugleika, hegðunarvanda eða minniháttar heilsufarsvanda.
Sérhæfðari þjónusta og markvissari stuðningur ef fyrri úrræði duga ekki; til dæmis sérdeildir eða starfsbrautir í skóla, einstaklingsbundinn stuðningur, færniþjálfun og fleira.
Stuðningur vegna flókins og fjölþætts vanda; til dæmis langvarandi sjúkrahúsdvöl barna og ýmis vistunarúrræði á grundvelli barnaverndarlaga.
Hjá börnum með mikla þjónustuþörf tekur málstjóri farsældar við hlutverki tengiliðar. Málstjóri ber meðal annars ábyrgð á gerð stuðningsáætlunar og stýrir stuðningsteymi sem stofnað er fyrir viðkomandi barn.
Stofnanir tengdar samþættri þjónustu
Helstu verkefni stofnana við samþættingu þjónustu samkvæmt lögum um farsæld barna eru þessi:
Barna- og fjölskyldustofa sinnir fræðsluhlutverki til þeirra sem veita þjónustu og til notenda þjónustunnar. Hún setur reglur varðandi vinnslu persónuupplýsinga og safnar almennum upplýsingum um málaflokkinn.
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur eftirlit með þeirri þjónustu sem veitt er og vinnur úr kvörtunum notenda. Stofnunin tekur við og vinnur úr kvörtunum notenda og ábendingum um þjónustu við börn.
Sveitarfélög tryggja svæðisbundið samráð og tilnefna málstjóra. Félagsþjónusta viðkomandi sveitarfélags getur veitt upplýsingar um réttan tengilið vegna þjónustu við barn.
Skólar og heilbrigðisstofnanir tilnefna starfsmenn sem eru tengiliðir vegna samþættrar þjónustu við börn í þeirra umsjá.
Kvartanir og ábendingar vegna þjónustu við börn
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur eftirlit með gæðum þjónustu við börn og tekur á móti:
Kvörtun vegna gæða þjónustu (frá notanda þjónustu)
Ábendingu vegna þjónustu (frá hverjum sem er)
Þjónustuaðili
Barna- og fjölskyldustofaTengd stofnun
Mennta- og barnamálaráðuneytiðTengd stofnun
Miðstöð menntunar og skólaþjónustuTengd stofnun
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála