Fara beint í efnið

Farsæld og velferð barna

  • Ert þú barn sem líður ekki vel og vantar að tala um hvernig þér líður?

  • Ert þú með áhyggjur af barninu þínu?

  • Hefur þú spurningar varðandi þjónustu fyrir barnið?

Allir foreldrar og börn frá meðgöngu til átján ára aldurs hafa aðgang að tengilið farsældar í sínu nærumhverfi, til dæmis í heilsugæslu og á öllum skólastigum. Foreldrar og börn geta talað við tengiliðinn um áhyggjur sínar og líðan.

Eitt af hlutverkum tengiliðar farsældar er að leiðbeina foreldrum og barni um þjónustu sem er í boði og upplýsa um mögulega samvinnu ólíkra aðila.

Mikilvægt að vita: Ef þú hefur grun eða vitneskju um að barn verði fyrir vanrækslu eða ofbeldi, eða hefur áhyggjur af áhættuhegðun barns er skylda að tilkynna um það til barnaverndarþjónustu.

  • Ein leið til þess er Netspjall 112.is, sem getur ráðlagt þér ef þú ert ekki viss hvað er tilkynningaskylt.

Hvað er átt við með farsæld barna?

Öll börn eiga samkvæmt lögum rétt á að fá þá þjónustu sem þau þurfa, þegar á þarf að halda.

Þannig geta börn og foreldrar óskað eftir svokallaðri samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna þegar þess er þörf. 

Hugtakið farsæld vísar í aðstæður þar sem barn getur náð fullum þroska og heilsu á eigin forsendum og með samþættingu er átt við skipulagt samstarf þeirra aðila sem veitt geta barninu rétta þjónustu.

Markmiðið er að börn fái rétta þjónustu á réttum tíma – og þannig þurfi færri börn umfangsmikla þjónustu síðar á lífsleiðinni.

Lög um farsæld barna ná til allra sem vinna með  börnum; bæði til opinberra aðila og annarra í skipulögðu starfi með börnum.

Á þeim hvílir meðal annars sú skylda að fylgjast með velferð og farsæld barns og að upplýsa börn og foreldra um aðgengi þeirra að tengilið farsældar þegar við á.

Tengiliður fyrir hvert barn

Allir foreldrar og börn frá meðgöngu til átján ára aldurs hafa aðgang að tengilið farsældar, hjá heilsugæslu, skóla eða félagsþjónustu.

Tengiliður barns er fagaðili í nærumhverfi þess sem hefur yfirsýn yfir þá möguleika sem eru í boði og getur svarað spurningum eða bent á leiðir varðandi þjónustu við barnið..

Tengiliður farsældar greiðir leið fjölskyldunnar í gegnum þau kerfi sem tengjast þjónustu við barnið. Hann veitir foreldrum og börnum upplýsingar varðandi þjónustu í stað þess að þau þurfi að fara á marga staði til að leita að slíkum upplýsingum. Það hvar tengiliður starfar ræðst af aldri barns:

  1. Á meðgöngu og á ungbarnaskeiði: Starfsmaður heilsugæslu – til dæmis ljósmóðir eða hjúkrunar­fræðingur í ung­barna­vernd.

  2. Í leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla: Starfsmaður skólans – til dæmis deildarstjóri, þroskaþjálfi eða námsráðgjafi.

  3. Fyrir börn og ungmenni sem ekkert af ofantöldu á við: Tengiliður hjá félagsþjónustu síns sveitarfélags.

Ef þess er þörf getur tengiliður farsældar boðað foreldra og barn (ef við á) til sín í samtal. Í því samtali er vandinn kortlagður og tengiliður upplýsir um þjónustu sem er til staðar og gæti nýst fyrir foreldra og barn..

Sem dæmi um þjónustu  má nefna:

  • námskeið, fræðsluefni og annan stuðning á vegum heilsugæslu

  • þroskastuðning og margvíslega þjónustu sérfræðinga í leikskólum

  • námsráðgjöf, námsúrræði, eineltisáætlanir, forvarnastarf og aðra þjónustu í grunn- og framhaldsskólum

  • æskulýðs- og tómstundastarf sveitarfélaga, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, íþróttir og listir

  • margvísleg úrræði félagsþjónustu og barnaverndarþjónustu

  • ýmis úrræði á vegum einkaaðila eða félagasamtaka, til dæmis varðandi andlega líðan og fíknivanda

Ef það er niðurstaða samtalsins að þjónusta ólíkra aðila gæti gagnast við lausn vandans getur tengiliður komið á samstarfi þeirra aðila og virkjað þannig samþættingu þjónustu

Ef foreldrar eða barn óska ekki eftir samþættingu þjónustu eiga þau samt rétt á þjónustu við barnið, en hún er þá ekki tengd verkferlum samþættingar – til dæmis varðandi samskipti aðila, miðlun upplýsinga og hlutverk tengiliðar.

Nánar um tengiliði og hlutverk þeirra á vefnum Farsæld barna.

Tenglar