Umsækjandi verður að sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að dveljast hér á landi. Trygg framfærsla þýðir að hafa næg fjárráð til að geta séð fyrir sér sjálfur.
Útlendingastofnun er heimilt að afla skattframtala og gagna frá skattayfirvöldum til staðfestingar á tryggri framfærslu.
Upphæð
Útlendingastofnun miðar við að mánaðarleg fjárráð umsækjenda séu að lágmarki:
239.895 krónur fyrir einstaklinga.
383.832 krónur fyrir hjón.
119.948 krónur til viðbótar vegna fjölskyldumeðlims 18 og eldri.
Viðmiðin samsvara grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar, sjá reglur um fjárhagsaðstoð. Upphæðir miðast við tekjur fyrir skatt.
Tímabil
Framfærsla útlendings þarf að vera trygg á gildistíma dvalarleyfis. Það þýðir að verði dvalarleyfi gefið út til eins árs þarf að sýna fram á trygga framfærslu fyrir eitt ár.
Undanþágur frá skilyrðinu um sjálfstæða framfærslu
Allir umsækjendur um dvalarleyfi þurfa að sýna fram á sjálfstæða framfærslu, nema í eftirfarandi undantekningartilvikum:
Fyrir barn, yngra en 18 ára, sem er á framfæri foreldris eða forsjáraðila sem búsettur er hérlendis, þarf ekki að sýna fram á sjálfstæða framfærslu.
Fyrir einstakling eldri en 18 ára,
sem hefur haft samfellt dvalarleyfi hér á landi frá því hann var barn,
stundar nám eða störf hér á landi,
býr hjá foreldri og
er hvorki í hjúskap né sambúð
er framfærsluviðmið 50% af lágmarksframfærslu einstaklings, það er 119.948 krónur á mánuði. Til viðbótar við þá framfærslu sem foreldri eða forsjáraðili þarf að sýna fram á fyrir sjálfan sig og aðra fjölskyldumeðlimi.
Hjúskaparmaki þarf ekki að sýna fram á sjálfstæða framfærslu. Vegna framfærsluskyldu á milli hjóna samkvæmt hjúskaparlögum er nægjanlegt að annar aðili í hjúskap sýni fram á næga framfærslu fyrir báða.
Foreldri 67 ára eða eldra sem er á framfæri barns eða barna sinna hér á landi þarf ekki að sýna fram á fulla sjálfstæða framfærslu. Fyrir það er framfærsluviðmið 50% af lágmarksframfærslu einstaklings, það er 119.948 krónur á mánuði, til viðbótar við framfærslu annara fullorðinna einstaklinga á heimilinu.
Vistfjölskylda þarf að sýna fram á framfærslu fyrir au pair. Viðbótarframfærsla miðast við 50% af lágmarksframfærslu einstaklings, það er 119.948 krónur auk launakostnaðar au-pair að upphæð 60.000 kr. fyrir hverjar fjórar vikur í starfi.
Hvað telst ekki trygg framfærsla
Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags (aðrar en húsnæðisbætur). Hafi umsækjandi þegið slíkan styrk og getur ekki sýnt fram á fullnægjandi framfærslu með öðrum hætti, verður dvalarleyfi synjað.
Meðlagsgreiðslur og barnalífeyrir þar sem þeim er ætlað að standa undir framfærslu barns.
Framfærsla þriðja aðila, í öðrum tilvikum en fram kemur framar í þessari umfjöllun
Eignir aðrar en bankainnstæður (til dæmis fasteignir) og arður af fyrirtækjum, vextir eða aðrar greiðslur sem ekki er tryggt hvort eða hvenær eru lausar til útborgunar
Reiðufé telst ekki fullnægjandi staðfesting á framfærslu.