Fara beint í efnið

Atvinnuleysisbætur

Hvað hefur áhrif á greiðslur til mín?

Á atvinnuleysisbótum þarf að:

  1. staðfesta atvinnuleit í hverjum mánuði,

  2. tilkynna um aukatekjur, hlutastörf og verktakavinnu,

  3. láta vita ef aðstæður breytast.

Þannig er hægt að koma í veg fyrir að þurfa að endurgreiða of háar bætur eða að greiðslum sé frestað.

Staðfesta atvinnuleit

Það þarf að staðfesta atvinnuleit milli 20. -25. hvers mánaðar. Annars frestast útborgun. Þetta er gert með því að smella á appelsínugula borðann sem birtist efst á Mínum síðum.

  • Ef atvinnuleit er staðfest milli 25. og 3. næsta mánaðar er greitt 5 virkum dögum eftir mánaðarmót.

  • Ef atvinnuleit er staðfest eftir 3. næsta mánaðar er greitt með útborgun um næstu mánaðarmót.

Staðfesta þarf atvinnuleit þó að umsókn sé enn í vinnslu og líka þó verið sé að fresta greiðslum vegna brota á reglum.

Tilkynna um vinnu eða tekjur

Aukatekjur og aðrar greiðslur geta haft áhrif á upphæð atvinnuleysisbóta. Ef einstaklingur lætur ekki vita um tekjur fær viðkomandi of mikið borgað og þarf svo að endurgreiða. Það er hægt að tilkynna á Mínum síðum Vinnumálastofnunar eða með því að hafa samband.

Verktakavinna

Atvinnuleysisbætur eru ekki greiddar þá daga sem unnin er verktakavinna. Tilkynna þarf um þá daga sem verkefni stendur yfir áður en verkefnið hefst.

Tilkynna þarf dag sem vinnudag þó að vinnan þann daginn taki minna en 8 klukkustundir. Ekki er heimilt að safna upp tímum vegna verktakavinnu.

Dæmi: Einstaklingur kennir tvisvar í viku í 2 klukkustundir og afskráir því 2 daga.

Tilfallandi vinna

Vinnu sem einstaklingur vinnur stundum þarf að tilkynna að minnsta kosti degi áður en hún hefst. Ekki þarf að tilkynna sérstaklega um lok hennar, því tekjurnar hætta að skerða atvinnuleysisbætur þegar vinnunni lýkur og launagreiðslur vegna hennar hætta.

Hlutastarf

Vinnuna þarf að tilkynna að minnsta kosti degi áður en hún hefst.

Á Mínum síðum er skráð kennitala og nafn fyrirtækisins, upphaf starfs, starfshlutfall í prósentum og áætlaða upphæð launa fyrir skatt. Ef tekjurnar breytast þarf að láta vita af því.

Hægt er að hafa samband við vinnuveitanda og biðja um að hann skili rafrænt í gegnum Mínar síður atvinnurekenda, undir Staðfestingu á starfstímabili. Það er líka hægt að fá vinnuveitanda til að fylla út eyðublað og hlaða upp á Mínum síðum í gegnum hnappinn Skila gögnum og velja tegund gagna Staðfesting á starfstímabili.

Ef hlutastarfi lýkur

Mikilvægt er að tilkynna um starfslok í hlutastarfi þegar vinnunni lýkur svo starfshlutfall og tekjuáætlun hætti að skerða atvinnuleysisbætur.

Tilkynna þarf starfslok í hlutastarfi með því að skila vottorði vinnuveitanda. Vottorð vinnuveitanda þarf að leggja fram til að upplýsa um ástæðu starfsloka og staðfesta starfshlutfall og tímabil.

Tekjur

  • Greiðslur úr lífeyrissjóði

  • Fjármagnstekjur, eigin eða maka. Ef einstaklingur er giftur samskattaður með maka færðu helming fjármagnstekna sem maki þinn fær.

  • Tekjur frá Tryggingastofnun

Aðstæður breytast

Ýmsar breytingar geta haft áhrif á rétt til atvinnuleysisbóta og þess vegna þarf að láta vita af þeim. Ef það er ekki gert getur útborgun verið frestað eða greiðslur stöðvaðar varanlega.

Þessi upplýsingaskylda á líka við þegar greiðslum hefur verið frestað vegna brota á reglum.

Aðrar skyldur

Þau sem fá greiddar atvinnuleysisbætur þurfa líka að:

  • passa að upplýsingar á Mínum síðum um símanúmer, netfang eða heimilisfang séu réttar,

  • mæta ef þau eru boðuð í viðtal á þjónustuskrifstofu,

  • svara boði í atvinnuviðtöl,

  • koma einu sinni á kynningu. Kynningar eru haldnar á þjónustuskrifstofu eða á netinu.

Afleiðingar vegna brota á reglum

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun