Fjarvinna
Fjarvinnustefna
Mikilvægt er að stjórnendur og starfsfólk komi sér saman um reglur og viðmið í fjarvinnu og að um þetta ríki gagnkvæmur skilningur. Þannig má auðvelda dagleg störf og draga úr líkum á hugsanlegum ágreiningi. Fjarvinnustefna er mikilvæg forsenda árangursríkrar fjarvinnu en í henni eru markmið fjarvinnu skilgreind og fjallað um réttindi og skyldur atvinnurekanda og starfsfólks við framkvæmd hennar.
Mælt er með að stefnan fjalli um eftirfarandi:
Hvaða störfum er unnt að sinna í fjarvinnu að öllu leyti, að hluta til eða eftir þörfum.
Hvort fjarvinna sé valkvæð fyrir starfsfólk eða hvort krafist er að starfsfólk starfi að hluta eða að öllu leyti í fjarvinnu.
Gerð áhættumats og aðgengi atvinnurekanda að vinnustöð í því sambandi.
Að starfsfólk hafi vinnuaðstöðu sem er örugg, hentug og án truflunar, hvort sem það er á heimili sínu eða öðrum skilgreindum stað.
Hvort starfsfólk er í aðstöðu til að vinna heima vegna fjölskylduábyrgðar.
Réttindi og skyldur atvinnurekanda og starfsfólks.
Hvaða búnaður er nauðsynlegur til að tryggja góða vinnuaðstöðu, svo sem skrifborð, stóll, tölva, skjár, lyklaborð, prentari.
Vinnutíma starfsfólks.
Hvernig árangur vinnunnar er metinn.
Samskiptavenjur stjórnanda og starfsfólks í fjarvinnu.
Viðmið um að ekki sé krafist vinnuframlags þegar starfsfólki er ekki mögulegt að mæta á starfsstöð eða ætti ekki að vera við vinnu vegna orlofs eða veikinda.
Net- og upplýsingaöryggi.
Hvernig meta skuli áhrif fjarvinnu á vinnustaðamenningu.
Álitaefni er kunna að varða búnað, ábyrgð og kostnað vegna fjarvinnu starfsmanns.
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið