Fara beint í efnið

Með fjarvinnu er átt við að starf eða verkefni sé unnið að staðaldri á vinnustöð utan hefðbundinnar starfsstöðvar á vinnustaðnum, til dæmis heima hjá starfsfólki. Hér er ekki átt við þegar starfað er tilfallandi á kaffihúsi eða öðrum sambærilegum stað. Fjarvinna er hvorki háð tíma né staðsetningu og hefur því aukið sveigjanleika í störfum margra.

Kostir við fjarvinnu

  • Aukin framleiðni þar sem starfsfólk verður síður fyrir truflunum heima en á skrifstofunni.

  • Auðveldara að samhæfa vinnu og einkalíf með sveigjanlegri vinnutíma. Býður til dæmis upp á að vera til staðar þegar 
börn koma heim úr skóla og minni tími fer í ferðir milli vinnu 
og heimilis.

  • Aukin starfsánægja að eiga kost á að vinna heima eða á öðrum skilgreindum stað þar sem það er tilbreyting frá skrifstofuvinnunni.

  • Sveigjanlegir vinnustaðir draga að sér hæfara starfsfólk og búseta starfsfólks skiptir minna máli.

  • Jákvæð áhrif á umhverfið vegna minni bíla- og flugumferðar sem dregur úr loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda.

  • Sparnaður atvinnurekanda vegna húsnæðiskostnaðar.

Fjarvinna hefur einnig í för með áskoranir, bæði fyrir starfsfólk og stjórnendur. Þess vegna er mjög mikilvægt að vinnustaðir setji sér viðmið í fjarvinnustefnu og hugi vel að því hvernig standa skuli að fjarvinnu starfsfólks.

Áskoranir tengdar fjarvinnu

  • Flókið að gera áhættumat á vinnustöð heima hjá starfsfólki eða á öðrum skilgreindum stað.

  • Lakari vinnuaðstaða.

  • Mörkin milli vinnu og einkalífs óskýrari.

  • Aukin hætta á lengri vinnudegi og að starfsfólk láti hjá líða að taka viðeigandi hlé frá vinnu.

  • Erfiðara að biðja um aðstoð eða fá endurgjöf

  • Aukin spenna í samskiptum stjórnenda og starfsfólks þegar samskiptavenjur hafa ekki verið skilgreindar.

  • Erfiðara að fylgjast með framvindu verkefna.

  • Erfiðara að stuðla að öflugri teymisvinnu, byggja upp tengsl innan teyma og eiga árangursrík samskipti.

  • Neikvæð áhrif á vinnustaðamenningu þar sem vinnufélagar hætta að hittast.

  • Félagsleg einangrun og einmanaleiki.

  • Þjónusta vegna viðhalds á tækjum og búnaði, svo sem tölvum, skrifborðum og stólum.

  • Álitaefni sem geta komið upp varðandi búnað, ábyrgð og kostnað vegna fjarvinnu.

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið