Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sækja um vegabréf

Þú getur sótt um nýtt vegabréf fyrir þig og börn í þinni forsjá. Í umsókninni skráir þú upplýsingar, greiðir fyrir vegabréfið og þarft svo aðeins að mæta í myndatöku innan 30 daga hjá embætti sýslumanna til að hægt sé að gefa út vegabréfið.

Almenn afhending er innan 4 daga og hraðafhending innan 2 daga frá því að umsækjandi kemur í myndatöku. Sendingartími bætist við afhendingartíma fyrir umsækjendur á landsbyggðinni.

Umsókn um vegabréf

Fullorðnir, 18 ára og eldri

  • Hefja umsókn á Ísland.is með rafrænum skilríkjum. Ef meira en 6 mánuðir eru eftir af gildistíma núverandi vegabréfs þarf að gera umsókn hjá sýslumanni.

  • Mæta í myndatöku til sýslumanns innan 30 daga. Framvísa verður eldra vegabréfi, ökuskírteini eða nafnskírteini.

  • Hægt er að bóka tíma hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Hjá öðrum sýslumönnum þarf ekki að bóka tíma fyrir myndatöku fyrir vegabréf.

Börn yngri en 18 ára

Ef tveir aðilar fara með forsjá barns þurfa báðir aðilar að samþykkja útgáfu vegabréfsins.

  1. Forsjáraðilar geta samþykkt útgáfu vegabréfs fyrir barn með rafrænum skilríkjum þegar umsókn er fyllt út hér á vef sýslumanna.

  2. Annar forsjáraðili sækir um vegabréfið fyrir barn og greiðir. Hinn forsjáraðilinn skráir sig inn á Ísland.is, velur umsóknir í vinnslu og klárar ferlið með því að samþykkja umsóknina. Samþykkið þarf að berast innan 7 daga, annars rennur umsókn út og er endurgreidd sjálfkrafa til greiðanda.

  3. Mæta þarf með barnið í myndatöku innan 30 daga til sýslumanns. Nóg er að einn forsjáraðili mæti með barni undir 18 ára. Forsjáraðili þarf að sýna skilríki. Ef þriðji aðili kemur með barninu þar hann að framvísa umboði.

Ef meira en 6 mánuðir eru eftir af gildistíma vegabréfs barns eða annað eða báðir forsjáraðilar eru ekki með rafræn skilríki þarf að veita skriflegt samþykki forsjáraðila

  • Fylla þarf út eyðublað V-901.
    Komi báðir forsjáraðilar með barninu í myndatöku til sýslumanns er hægt að fylla eyðublaðið út hjá sýslumanni. Forsjáraðilar sem koma með barn í myndatöku þurfa að sýna skilríki.

  • Komist annar forsjáraðilinn ekki á umsóknarstað þarf hann að fylla út eyðublaðið í viðurvist tveggja votta. Hinn forsjáraðilinn tekur það með sér til sýslumanns.

  • Forsjáraðilar geta veitt 3ja aðila umboð til að sækja um vegabréf. Þá skal fylla út eyðublað V-901 ásamt fylgiskjali og fá undirskriftir tveggja votta.

Afhending

Almenn afhending er innan 4 daga og hraðafhending innan 2 daga frá því að umsækjandi kemur í myndatöku. Sendingartími bætist við afhendingartíma fyrir umsækjendur á landsbyggðinni.

Hægt er að fá vegabréf afhent á fjóra vegu:

  1. Sækja í Hagkaup, Skeifunni 15, 108 Reykjavík. Opnunartími er allan sólarhringinn.

    • Umsækjandi verður að sækja innan 7 daga frá því að vegabréf berst þangað.

    • Eldra vegabréf verður að vera útrunnið eða búið að ógilda það hjá sýslumanni til að hægt sé að sækja nýtt í Hagkaup.

    • Ekki er hægt að afhenda vegabréf eftir umboði í Hagkaup.

  2. Sækja á umsóknarstað á sýsluskrifstofum um allt land á opnunartíma.

  3. Sækja í afgreiðslu Þjóðskrár, Borgartúni 21, 105 Reykjavík. Opnunartími er frá kl. 10-15 alla virka daga.

  4. Erlendis í sendiráði eða ræðismanni.

Þegar vegabréf barna eru sótt þarf forsjáraðili að sýna skilríki. Börn þurfa ekki að koma með. Ef þriðji aðili sækir vegabréf fyrir barn þarf hann að framvísa umboði og skilríkjum.

Ef annar en umsækjandi sækir vegabréf þarf hann að framvísa skilríkjum og umboði frá eiganda vegabréfsins, óháð hjúskaparstöðu eða tengslum.

Kostnaður

Almenn afgreiðsla vegabréfa:

  • 18 til 66 ára: 14.000 krónur.

  • Börn, aldraðir, öryrkjar: 6.000 krónur.

Hraðafgreiðsla:

  • 18 til 66 ára: 28.000 krónur.

  • Börn, aldraðir, öryrkjar: 12.000 krónur.

Myndataka

  • Þegar komið er í myndatöku til sýslumanns þarf umsækjandi eða forsjáraðili/ar að framvísa eldra vegabréfi, ökuskírteini eða nafnskírteini.

  • Hægt er að koma í myndatöku fyrir vegabréf til hvaða sýslumannsembættis sem hentar best.
    Ekki er hægt að taka við umsóknum um vegabréf og nafnskírteini og mæta í myndatöku á starfstöð sýslumanns í Búðardal, Hvammstanga, Dalvík, Raufarhöfn og á Þórshöfn.

  • Hægt er að bóka tíma hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu eða mæta án tímabókunar, biðtími getur verið lengri. Hjá öðrum sýslumannsembættum þarf ekki að bóka tíma í myndatöku fyrir vegabréf.

  • Alltaf þarf að taka nýja mynd fyrir nýtt eða endurnýjað vegabréf.

  • Hægt er að nota mynd frá ljósmyndastofu í vegabréf ef umsækjandi vill.

    • Umsækjandi þarf að biðja ljósmyndastofuna um að senda myndina í tölvupósti til þess sýslumannsembættis sem umsækjandi ætlar að koma til.

    • Alltaf þarf að taka mynd af umsækjanda hjá sýslumanni líka til samanburðar.

    • Athugið að ekki er hægt að taka við myndum í tölvupósti frá umsækjanda eða á minnislykli.

Ef umsækjandi á ekki vegabréf, nafnskírteini eða ökuskírteini þarf hann að:

  • Koma í eigin persónu til sýslumanns til að sækja um vegabréf.

  • Koma með tvo einstaklinga eldri en 18 ára sem staðfesta hver hann er, þeir þurfa að framvísa ökuskírteini, vegabréfi eða nafnskírteini.

  • Fylla út eyðublað um sannvottun einstaklings.

Hvar er hægt að sækja um vegabréf erlendis:

  • Í ákveðnum sendiráðum erlendis.

  • Ræðismenn Íslands erlendis geta eingöngu gefið út neyðarvegabréf en geta ekki tekið við umsóknum um almenn vegabréf.

Endurgreiðsla ef ekki er mætt í myndatöku innan 30 daga:

Ef fyllt er út stafræn umsókn og ekki mætt í myndatöku innan 30 daga, þarf umsækjandi sjálfur að óska eftir endurgreiðslu með því að senda tölvupóst á endurgreidsla@island.is. Vinsamlega takið fram kennitölu umsækjanda.

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9.30 - 15
Fös. 9:30 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15