Sveitarstjórnarkosningar 2026
Meðmælasöfnun
Framboð þurfa að safna meðmælum til stuðnings framboðinu og skila ásamt öðrum framboðsgögnum.
Í mörgum sveitarfélögum verður hægt að safna meðmælum rafrænt en einnig er heimilt að safna meðmælum á pappír. Opnað verður fyrir rafræna meðmælasöfnun í mars.
Fjöldi meðmælenda skal vera:
a. 10-20 meðmælendur í sveitarfélagi með 101–500 íbúa,
b. 20-40 meðmælendur í sveitarfélagi með 501–2.000 íbúa,
c. 40-80 meðmælendur í sveitarfélagi með 2.001–10.000 íbúa,
d. 80-160 meðmælendur í sveitarfélagi með 10.001–50.000 íbúa,
e. 160-320 meðmælendur í sveitarfélagi með 50.001 og fleiri íbúa.
Rafræn söfnun meðmæla
Opnað verður fyrir rafræna meðmælasöfnun í mars. Ef yfirkjörstjórn sveitarfélags hefur opnað fyrir rafræna meðmælasöfnun í sveitarfélaginu getur forsvarsmaður framboðs skráð sig inn á Ísland.is og stofnað meðmælasöfnun fyrir framboðslista. Stofnandi söfnunarinnar þarf að hafa lögheimili í sveitarfélaginu. Nafn og fæðingardagur stofnandans birtist með söfnuninni.
Stofnandi söfnunarinnar getur veitt öðrum umboð til þess að sýsla með meðmælendasöfnun fyrir hönd framboðsins, t.d. til að fylgjast með framgangi söfnunar, slá inn kennitölur meðmælenda sem safnað er á pappír og taka út skýrslu til yfirkjörstjórnar sveitarfélagsins.
Söfnun meðmæla á pappír
Bráðlega má nálgast eyðublað til þess að safna meðmælum á pappír. Ef notast er við rafræna meðmælendakerfið er hægt að slá þær kennitölur inn í meðmælenda kerfið og fá þannig upp stöðu á meðmælasöfnuninni en skila þarf inn frumriti meðmælalistanna við skil á framboðinu.