Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu
Tilkynningarskylda
Efnisyfirlit
Ábyrgð tilkynningaskyldra aðila
Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að rannsaka öll viðskipti og fyrirhuguð viðskipti sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.
Ef við rannsókn á viðskiptum, eða fyrirhuguðum viðskiptum, vaknar upp grunur um að þau séu grunsamleg eða óvenjuleg skal kanna bakgrunn og tilgang viðskiptanna að því marki sem unnt er. Það felst meðal annars í því að:
afla nauðsynlegra upplýsinga um viðskiptamann og fyrirhuguð viðskipti
kanna áreiðanleika fyrirliggjandi gagna
leggja sjálfstætt mat á fyrirliggjandi gögn og upplýsingar
gera skriflega skýrslu, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 140/2018, þar sem fram kemur meðal annars:
skrá yfir fyrirliggjandi gögn og upplýsingar
aðgerðir sem gripið var til, meðal annars varðandi upplýsingaöflun og framkvæmd viðskipta,
niðurstöður athugunar, það er, hvort senda beri tilkynningu til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.
Hvað á að tilkynna?
Ef grunur vaknar um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka ber að tilkynna viðskiptin til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu skv. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 140/2018.
Þá er vísað til lægsta stigs gruns, þ.e. að sérhver grunur, óháð því hve mikill hann er, uppfyllir skilyrði um grun. Næganlegt er að grunur sé til staðar um að fjármuni kunni að mega rekja til refsiverðrar háttsemi, burt séð frá því hvort grunur reynist síðar meir hafa verið reistur á fullnægjandi rökum.
Tilkynningarskyldir aðilar, starfsmenn þeirra og stjórnendur skulu tímanlega tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um grunsamleg viðskipti og fjármuni sem grunur leikur á að rekja megi til refsiverðrar háttsemi.
Forðast skal viðskipti, þegar fyrir hendi er vitneskja eða grunur um að þau megi rekja til refsiverðrar háttsemi, þar til tilkynning hefur verið send skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og leiðbeiningar hafa borist frá skrifstofunni og þeim hefur verið fylgt. Í tilkynningu skal, ef við á, koma fram innan hvaða frests tilkynningarskyldum aðilum er skylt að framkvæma viðskiptin.
Ef ekki er unnt að koma í veg fyrir viðskiptin eða stöðvun þeirra gæti hindrað rannsókn á hendur þeim sem hafa hagsmuni af viðskiptunum skal skrifstofu fjármálagreininga lögreglu tilkynnt um viðskiptin um leið og þau hafa farið fram.
Tilkynningarskyldum aðilum, stjórnendum, starfsmönnum og öðrum sem vinna í þágu þeirra er skylt að sjá til þess að viðskiptamaður eða þriðji aðili fái ekki vitneskju um að skrifstofu fjármálagreininga lögreglu muni verða eða hafi verið send tilkynning skv. 21. gr. eða að greining á grundvelli slíkrar tilkynningar sé hafin eða kunni að verða hrundið af stað.
Dæmi um grunsamleg og óvenjuleg viðskipti
Viðskiptamaður sannar ekki á sér deili með fullnægjandi hætti.
Viðskiptamaður gefur ekki upplýsingar um tilgang fyrirhugaðra viðskipta.
Viðskiptamaður gefur ótrúverðugar upplýsingar, t.d. með hliðsjón af öðrum fyrirliggjandi upplýsingum og umfangi viðskipta.
Ef um háar fjárhæðir er að ræða þar sem greitt er með reiðufé og háar innlagnir eða úttektir í reiðufé.
Ef ætla má að viðskipti fari fram í þágu þriðja aðila og viðskiptamaður neitar að veita upplýsingar um þriðja aðila.
Viðskipti sem ekki virðast hafa fjárhagslegan eða lögmætan tilgang.
Viðskipti eru óvenjuleg, mikil eða flókin, með hliðsjón af venjubundinni starfsemi viðskiptamannsins.
Viðskiptamaður dregur sig út úr viðskiptum þegar farið er að afla upplýsinga um tilgang þeirra, uppruna fjármuna eða annarra upplýsinga.
Viðskiptamaður neitar að svara spurningum vegna áreiðanleikakönnunar.
Heimilisfang viðskiptamanns er óþekkt eða margir nota sama heimilisfangið þar sem í raun er engin starfsemi eða móttakandi.
Viðskiptamaður greiðir upp lán á mjög skömmum tíma án viðeigandi skýringa t.d. með reiðufé.
Greitt er inn á lán af þriðja aðila t.d. lán sem hefur verið í vanskilum og jafnvel greitt með reiðufé.
Notkun á reikningi viðskiptamanns er ekki í samræmi við upplýsingar sem veittar voru við stofnun reikningsins t.d. varðandi veltu og millifærslur erlendis.
Viðskiptamaður notar mörgum sinnum sömu skjölin til að gera grein fyrir uppruna fjármagns t.d. erfðaskrá.
Viðskiptamaður tengist áhættusömu ríki eða ríkjasvæðum.
Starfsemi eða eignarhald lögaðila er flókið eða óvenjulegt miðað við það sem eðlilegt mætti teljast.
Hvert á að tilkynna
Tilkynningar til Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu eiga að berast í gegnum goAML.
goAML er kerfi sem skrifstofa fjármálagreininga lögreglu notar til að móttaka tilkynningar frá tilkynningarskyldum aðilum.
Tilkynna um ábyrðarmann
Skv. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er tilkynningarskyldum aðilum skylt að tilnefna sérstakan ábyrgðarmann úr hópi stjórnenda.
Ábyrgðarmaður annast að jafnaði tilkynningar til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu í samræmi við 21. gr sömu laga og þarf að hafa skilyrðislausan aðgang að áreiðanleikakönnun viðskiptamanna, viðskiptum eða beiðnum um viðskipti ásamt öllum þeim gögnum sem geta skipt máli vegna tilkynninga.
Tilkynningar um ábyrgðarmann skal senda á netfangið pt@hersak.is
Sjá nánari leiðbeiningar um ábyrgðarmenn á vef stjórnarráðsins.