Kórónuveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum (m.a. fuglum og spendýrum). Kórónuveirur eru þekkt orsök kvefs en aðrar kórónuveirur geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu og jafnvel dauða. Fyrri sjúkdómshrinur af völdum kórónuveiru voru SARS-CoV sem kom fram á árunum 2002–2003 og MERS frá árinu 2012.
Orsök núverandi faraldurs er kórónuveira sem hafði ekki áður greinst þegar hún kom fram árið 2019. Vegna mikils skyldleika við SARS veiruna hlaut hún nafnið SARS-CoV-2 og sjúkdómurinn sem hún veldur hlaut nafnið COVID-19. Talið er að veiran hafi borist í menn frá dýri en ekki hefur verið staðfest frá hvaða dýri þó að leðurblökur séu taldar líklegar.
Flestir sýna einkenni 2–3 dögum eftir smit og nær allir innan 7 daga. Einkenni eru ýmis eins og hósti, hiti, kvefeinkenni, bein- og vöðvaverkir og þreyta, hálsbólga. Meltingareinkenni (kviðverkir, ógleði/uppköst, niðurgangur) og breyting eða tap á bragð- og lyktarskyni getur gerst. COVID-19 getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingu og lungnabólgu, sem kemur þá oft fram sem öndunarerfiðleikar á fyrstu viku veikinda. Veikindi geta verið langdregin með hættu á öðrum sýkingum í kjölfarið, s.s. bakteríulungnabólgu. Þá glíma sumir við langvarandi fylgikvilla svo sem mæði, brjóstverki, svima, þreytu, orkuleysi og höfuðverki.
COVID-19 smitast á milli einstaklinga. Smitleið er úða/loft-, snerti- og dropasmit. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér og annar einstaklingur andar að sér úða frá þeim veika eða hendur mengast af dropum og viðkomandi ber þær svo upp að andliti sínu. Úðasmit eða loftborið smit felur í sér að veiran getur hangið í loftinu í mjög fínum úða frá öndunarfærum. Þá getur smitaður einstaklingur verið farinn úr rými s.s. herbergi þar sem loftræsting er léleg en veiran enn verið í loftinu í smátíma og næstu einstaklingar sem nota rýmið andað henni að sér og smitast.
Fólk getur veirð smitandi í 1–2 daga áður en einkenni koma fram. Sumir fá einnig lítil sem engin einkenni og geta þó verið smitandi.
Náin umgengni og snerting eykur líkur á smiti. Aðstandendur á heimili með einstaklingi veikum af COVID-19 eru í mestri hættu á að smitast sjálfir. Einstaklingar sem umgangast náið mikinn fjölda einstaklinga eru einnig í meiri smithættu en þeir sem umgangast fáa aðra. Handhreinsun og almennt hreinlæti eru mikilvægar varnir gegn smiti.
Allir geta smitast og veikst en líkur á alvarlegum sjúkdómi hækka með hækkandi aldri, sérstaklega eftir 65–70 ára aldur. Einstaklingar með ákveðin undirliggjandi vandamál eru einnig í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir fá COVID-19 sjúkdóm. Þessi vandamál eru m.a. hjarta- og æðasjúkdómar, langvinnir lungnasjúkdómar, sykursýki, mikið skert nýrnastarfsemi, offita, krabbamein, ákveðnir meðfæddir ónæmisgallar eða sjúkdómar/lyf sem valda ónæmisbælingu. Líffæraþegar, barnshafandi konur og einstaklingar með alvarlegar geðraskanir eru einnig talin í aukinni áhættu, sem og börn með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma. Einstaklingar ættu að leita nánari leiðbeininga hjá sínum læknum.
Endursýkingar geta gerst en ónæmi vegna fyrri sýkingar og bólusetninga draga úr líkum á alvarlegum veikindum við endursýkingu.
Á vef Lyfjastofnunar má finna upplýsingar um lyf vegna COVID-19. Sýklalyf virka ekki því sýklalyf virka á bakteríur en ekki veirur. Meðferð er aðallega stuðningsmeðferð og fer eftir einkennum og ástandi sjúklings (t.d. gefa súrefni, vökva í æð) en sérstök lyf eru notuð fyrir suma sjúklinga.
Próf til að greina SARS-CoV-2 kórónuveiru er PCR-próf eða hraðpróf.
PCR-próf er gert á heilsugæslu eða sjúkrahúsi og leitar að erfðaefni veirunnar (kjarnsýru, RNA) en hraðpróf leita að prótíni (e. antigen) veirunnar. Ef merki um veiruna finnst telst próf jákvætt en neikvætt ef veiran finnst ekki.
Sjálfspróf eru hraðpróf sem einstaklingar framkvæma á sjálfum sér og yfirleitt lesa þeir einnig og túlka niðurstöður sjálfir. Hægt er að kaupa hraðpróf í apótekum og stórmörkuðum og notast við heima til að fá staðfestingu um smit.
Mótefnamæling er blóðprufa sem mælir mótefni sem einstaklingur myndar sem hluta af ónæmissvari við smiti. Þannig er hægt að sjá merki um smit þó einstakling sé batnað. Mótefni sem hægt er að mæla í mótefnaprófi dvína þó með tímanum (eftir nokkra mánuði).
Varúð í umgengni og nánd við aðra, grímunotkun og góð handhreinsun eru mikilvæg ráð til að forðast smit.
Smit er helst beint á milli einstaklinga með dropa- og úðasmiti.
Nánd við aðra eykur líkur á smiti.
Rétt er að forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni, hnerra eða hósta. Þeir sem þurfa að hósta og hnerra ættu að gera slíkt í olnbogabót eða í bréfþurrku sem síðan er hent.
Grímur nýtast til að takmarka dreifingu dropa/úða en einnig þegar náið samneyti er óhjákvæmilegt. Grímur veita þó mismikla vörn eftir tegund og eftir því hvernig þær eru notaðar.
Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur til handhreinsunar.
Handspritt má nota ef hendur eru ekki sýnilega óhreinar eftir snertingu sameiginlegra snertiflata s.s. hurðahúna eða eftir meðhöndlun peninga eða greiðslukorta.
Hanskar. Best er að sinna vel handhreinsun. Ef fólk vill nota hanska t.d. við afgreiðslu, þá þarf að fara í hreina hanska fyrir hverja afgreiðslu og henda þeim gömlu í ruslaílát. Við ákveðnar aðstæður á hanskanotkun einnig við, s.s. í heilbrigðisþjónustu og við þrif.
Grímur eru hluti einstaklingsbundinna sóttvarna og koma til viðbótar handþvotti og öðrum sóttvörnum. Mikilvægt er að nota grímu rétt og að hún hylji nef og munn, einnig ef gríma blotnar (vegna raka í andardrætti) gerir hún ekki gagn.
Áður og eftir að gríma er snert ætti að hreinsa hendur.
Í tengslum við heilbrigðisþjónustu skal nota viðeigandi hlífðarbúnað og þá helst veiruhelda grímu (FFP2). Fyrir almenning, s.s. þar sem margir koma saman, má nota einnota grímu, svokallaðar skurðstofugrímur, en einnig kemur til greina að nota fjölnota taugrímur. Afar mikilvægt er að nota ekki sömu grímu of lengi og þvo fjölnotagrímur daglega. Einnota grímur á ekki að geyma til að nota aftur.
Almennt lifa kórónuveirur ekki lengi utan líkama. Rannsóknir benda til að kórónuveirur (þ.m.t. SARS-CoV-2) geti lifað utan líkama í einhverjar klukkustundir upp í nokkra daga. Þetta er mismunandi eftir aðstæðum (t.d. tegund yfirborðs, hita og rakastigi umhverfis). SARS-CoV-2 veiran virðist lifa lengur utan líkama á hörðu og köldu yfirborði heldur en á mjúku efni eins og pappa og pappír.
Ef yfirborð gæti verið mengað skyldi þrífa það með vatni og sápu eða sótthreinsiefni. Síðan skyldi hreinsa hendur með sápu og vatni eða handspritti og varast að snerta andlit (augu, munn eða nef).
Ekkert bendir til þess að kórónuveiran berist með matvælum skv. áliti matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). COVID-19 er ekki matarborinn sjúkdómur. Þeir sem eru veikir ættu þó ekki að útbúa mat fyrir aðra þar sem snertismit er smitleið.
Spurningar og svör er varða matvæli er að finna á vef Matvælastofnunar.
Talið er að veiran sé upprunin í dýrum, líklega leðurblökum en veiran er nú aðlöguð að mönnum og er fyrst og fremst vandamál meðal manna. Ekki hefur verið sýnt fram á smit frá húsdýrum eða gæludýrum til manna eða annarra dýra. Veiran hefur greinst í ýmsum dýrategundum en aðallega kattardýrum (köttum, tígrísdýrum og ljónum) en einnig minkum, dádýrum, hundum, hömstrum o.fl. Engar vísbendingar eru um að dýr hafi borið smit í fólk né önnur dýr heldur talið að dýrin hafi smitast frá fólki. Matvælastofnun fylgist með þekkingarþróun á þessu sviði.
Nánari upplýsingar um COVID-19
Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins: European Centre for Disease Prevention and Control (ECDC)
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin: World Health Organisation (WHO)
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis