Sýkingavarnir innan heilbrigðisþjónustu
Sýkingar sem tengjast heilbrigðisþjónustu geta komið upp hjá einstaklingum sem liggja á sjúkrahúsum, endurhæfingar- eða langlegustofnunum eða þiggja heilbrigðisþjónustu á göngudeildum og einkareknum aðgerðastofum heilbrigðistarfsmanna.
Orsakir þess geta verið örverur sem berast með höndum starfsfólks, áhöldum eða umhverfi, örverur af einstaklingnum sjálfum, minnkuð mótstaða vegna skurðaðgerða, annarra inngripa eða sjúkdóma.
Helstu sýkingar sem tengjast heilbrigðisþjónustu
Þvagfærasýkingar sem oft tengjast notkun þvagleggja
Sýkingar í skurðsár í kjölfar skurðaðgerða
Lungnabólgur vegna meðferðar í öndunarvélum
Blóðsýkingar sem tengjast notkun æðaleggja
Niðurgangur af völdum veira eða afleiðing sýklalyfjatöku
Sýkingar af völdum ónæmra baktería.
Sýkingar tengdar heilbrigðisþjónustu leiða til aukinna dauðsfalla, lengri legutíma og aukins kostnaðar við heilbrigðisþjónustu.
Mikilvægasta verkefni sýkingavarna er því að koma í veg fyrir þessar sýkingar, en talið er að með öflugum sýkingavörnum megi draga úr þeim um 20–30%.
Í meðfylgjandi myndböndum frá Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) er myndrænt minnt á hvernig sýklamengun getur dreifst frá einum til annars í daglegu lífi.
Sýkingavarnir og skráning þeirra á sjúkrahúsum
Á deildaskiptum sjúkrahúsum skal, samkvæmt reglugerð um sóttvarnaráðstafanir nr. 817/2012, starfa sýkingavarnanefnd og eftir atvikum sýkingavarnadeild sem hafa það hlutverk að skrá aðgerðatengdar sýkingar og stuðla að sýkingavörnum innan sjúkrahússins.
Sýkingar innan heilbrigðisþjónustu eru skráningarskyldar og ber að tilkynna til sóttvarnalæknis í samræmi við nánari fyrirmæli hans.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis