Fara beint í efnið

Hlífðarbúnaður gegn smitandi efni

Hlífðarbúnað til varnar smitefni skal ávallt nota samhliða öðrum sýkingavarnaaðgerðum og vinnuaðferðum sem miða að því að rjúfa smitleiðir sýkla. 

Hlífðarbúnaður er ætlaður til að verja einstaklinga gegn smitandi efni með því að rjúfa smitleiðir sýkla.

  • Hanskar notaðir til að verjast smiti við snertingu

  • Hlífðargrímur; skurðstofugríma eða fínagnagríma til að verjast innöndun smitefnis sem berst með lofti (úði- og vessar frá öndunarfærum)

  • Augnhlífar til að verjast slettum/íringu líkamsvessa

  • Hlífðarsloppar til að hlífa starfsklæðnaði og húð við snertingu við smitefni

Þeir sem nota hlífðarbúnað í sýkingavarnatilgangi þurfa að fá þjálfun í notkun hans og fylgjast þarf með að búnaðurinn sé rétt notaður.

Skynsamleg notkun hlífðarbúnaðar

  • Val á hlífðarbúnaði sem notaður er hverju sinni miðast við smitefni og smitleiðina sem þarf að rjúfa. Skilgreina þarf áhættuna í hverju tilviki og meta hvaða búnaður er nauðsynlegur.

  • Forðast ber að endurnota hlífðarbúnað sem framleiddur er sem einnota.  Ekki er vitað hvort slík endurnotkun einnota búnaðar veiti sömu vörn og áður eða geti hugsanlega aukið sýkingarhættu.

  • Ef birgðir eru takmarkaðar og einnota hlífðarbúnaður er ekki fyrir hendi ber að nota margnota búnað (t.d. bómullarsloppa sem hægt er að þvo og sótthreinsa með hita) og sótthreinsa eftir hverja notkun.

  • Forðast ber sóun og metið með gagnrýnum huga hvaða búnaðar er þörf íhverju tilfelli.  Nýta búnaðinn vel.

Hlífðargrímur til varna gegn innöndun smitefnis

  • Hlífðargrímur eru af ýmsum gerðum t.d. „skurðstofugrímur”, „fínagnasíur“, heilgrímur með ferskloftsútbúnaði o.s.frv. Í sambandi við grímur er notaður öryggisstuðull / verndarstuðull sem segir til um hversu mikið gríman dregur úr mengun. Velja verður grímu með öryggisstuðul miðað við mengunarmörk og mengunina og aðstæður í hverju tilviki.

  • Hlífðargrímur/síur sem einungis eru gegn ögnum flokkast eftir hversu mikið af ögnum þær geta síað úr andrúmslofti í FFP 1 (öryggisstuðull 4), FFP 2 (öryggisstuðull 10) og FFP 3 (öryggisstuðull 20) þar sem FFP 3 veitir bestu vörnina.

  • Mikilvægt er að fínagnagrímur (FFP 2 og FFP 3) falli vel að andliti notanda og séu alveg þéttar. Ef gríman blotnar eða óhreinkast af vessum þarf að skipta strax um grímu.  Henda notaðri grímu strax í rusl og spritta eða þvo hendur í kjölfarið.

  • Til að tryggja rétta notkun fínagnagríma er þjálfun starfsmanna nauðsynleg. 

  • Kenna og þjálfa: 

    • hvernig á að setja á sig fínagnagrímu

    • hvernig á að kanna hversu þétt gríman fellur að andlitinu (þrýstingspróf)

    • hvernig á að komast hjá því að menga grímuna við notkun

    • hvernig á að taka af sér grímuna 

    • hvernig á að henda notaðri grímu

  • Ef sjúklingum með sama smitandi öndunarfærasjúkdóminn er safnað saman í hópeinangrun eða eru á nokkrum samliggjandi stofum á sjúkradeild getur starfsmaðurinn verið með sömu fínagnagrímuna á meðan á vinnulotu stendur.  Við slíka notkun fínagnagrímu má starfsmaðurinn ekki taka af sér grímuna á meðan á vinnulotunni stendur og hann má ekki snerta hana.  Ef gríman blotnar eða mengast  t.d. við snertingu þarf strax að skipta um grímu.

Augnhlífar

  • Augnhlífar eru til að verja slímhúð augna gegn slettum/íringu líkamsvessa og eru þannig hluti af grundvallarsmitgát sem ávallt skal viðhafa ef líklegt er talið að líkamsvessamengun geti orðið.  Augnhlífar flokkast sem staðalútbúnaður starfsfólks við slysa- og skurðaðgerðir.

  • Augnhlífar geta verið hluti hlífðarbúnaðar við umönnun í heilbrigðisstofnun ef smitefni sjúklings hefur sækni í slímhúð augna.

  • Augnhlífar geta verið einnota eða margnota.  Margnota augnhlífar skulu þrifnar og sótthreinsaðar eftir hverja notkun.  Handhreinsun er nauðsynleg eftir að notuð augnhlíf er snert (tekin niður eftir notkun og eftir hreinsun).

  • Venjuleg gleraugu eru ekki hönnuð til að vernda slímhúð í augum gegn íringu og slettum og geta því ekki komið í stað augnhlífa. 

Hanskar

  • Hanskar eru notaðir við grundvallarvarúð gegn sýkingum þ.e. þegar snerta þarf blóð, líkamsvessa, slímhúðir eða rofna húð.

  • Hanskar geta verið hluti hlífðarbúnaðar þ.s. einangrun gegn snertismiti fer fram.

  • Skipta þarf um hanska þegar farið er á milli verkefna sem geta mengað hanskana, við umönnun sama einstaklings.

  • Fara strax úr hönskum eftir notkun, áður en snert er á hreinu yfirborði og áður en næsta sjúklingi er sinnt.

  • Hreinsið hendur með spritti eða handþvotti strax eftir að farið er úr hönskum.

Hlífðarsloppar

  • Hlífðarsloppar eru notaðir til að verja fatnað gegn mengun, skvettum og íringu af blóði og líkamsvessum.

  • Hlífðarsloppar geta verið hluti hlífðarbúnaðar þ.s. einangrun gegn snertismiti fer fram.

  • Velja þarf hlífðarslopp m.t.t. hversu mikilli vætu þarf að verjast.  Ef mikil bleyta er fyrirséð eða verið er að verjast miklu magni smitefnis og sloppurinn er ekki vatnsheldur þarf að hafa vatnshelda svuntu utan yfir sloppnum.

  • Fara strax úr hlífðarsloppi um leið og verki lýkur, henda í rusl eða setjið í poka fyrir óhreint lín. Hreinsið hendur á eftir.

Að fara í og úr hlífðarbúnaði

Val á hlífðarbúnaði sem notaður er hverju sinni miðast við smitefni og smitleiðina sem þarf að rjúfa.

  • Skilgreindu áhættuna og hvaða búnaður er nauðsynlegur.

  • Finndu til allan búnað sem þú telur þörf fyrir.

  • Þrífðu hendur með handspritti eða með handþvotti með vatni og sápu.

  • Farðu í og úr hlífðarbúnaðinum í réttri röð til að tryggja að búnaðurinn verji þig gegn smitefninu á meðan þú ert í honum og til að draga úr líkum á að smitefni utan af búnaðinum berist á þig þegar þú ferð úr honum. 

Að fara í hlífðarbúnað

Rétt röð þegar farið er í hlífðarbúnað (þegar þarf að nota það sem hér er talið):

  1. Handhreinsun;

  2. Sloppur;

  3. Hlífðargríma/fínagnasía;

  4. Hlífðargleraugu;

  5. Hanskar



Þjónustuaðili

Embætti land­læknis