Fara beint í efnið

Til að geta sótt um húsnæðisbætur þarftu að vera 18 ára eða eldri.

Leigusamningur

  • Leigusamningur þarf að gilda í að minnsta kosti 3 mánuði.

  • Leigusamningur þarf að vera skráður í leiguskrá.

Búseta

Þú þarft að búa og vera með lögheimili í leiguhúsnæðinu.

Undantekning á því er ef þú getur sýnt fram á að þú búir tímabundið annars staðar vegna:

  • náms (staðfesting á skólavist)

  • veikinda (læknisvottorð)

  • dvalar á áfangaheimili (staðfesting áfangaheimilis)

  • tímabundinnar vinnu fjarri lögheimili (ráðningarsamningur)

Ef þú ert með lögheimili erlendis getur þú ekki fengið húsnæðisbætur.

Heimilisfólk

Fjöldi þeirra sem búa á heimilinu hefur áhrif á rétt bóta og frítekjumörk. Þú þarft að skrá alla sem búa á heimilinu, líka börn undir 18 ára aldri.

Ef þú átt barn sem er hjá þér 30 daga eða meira á ári en er ekki með lögheimili hjá þér geturðu samt skráð barnið á umsóknina. Þá sendirðu umgengnis- eða forsjársamning með umsókn til staðfestingar.

Leigusali má ekki vera með skráð lögheimili í leiguíbúðinni eða búa þar.

Húsnæði

Leiguíbúðin þarf að hafa að minnsta kosti 1 svefnherbergi, séreldunaraðstöðu og sérbaðherbergi. Íbúðin má ekki vera atvinnuhúsnæði.

Þú getur fengið húsnæðisbætur ef þú leigir herbergi:

  • á námsgörðum eða heimavist

  • í húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk

  • á áfangaheimili

Heimilisfólk má ekki eiga leiguíbúðina eða eiga ráðandi hlut í félagi sem á íbúðina.

Aðeins er hægt að hafa 1 samþykkta umsókn um húsnæðisbætur á íbúð.

Umsókn um húsnæðisbætur