Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis
Vinnsluaðili: Embætti landlæknis
Tilgangur: Að afla þekkingar um lyfjaávísanir og lyfjanotkun, hafa almennt eftirlit með ávísunum lækna á lyf og fylgjast með þróun lyfjanotkunar. Heimilt er að nota upplýsingar úr gagnagrunninum til vísindarannsókna. Læknar sem koma að meðferð skjólstæðinga hafa aðgang að lyfjaupplýsingum skjólstæðinga sinna og einstaklingar hafa aðgang að eigin lyfjaupplýsingum í lyfjagagnagrunni í gegnum Heilsuvera.is.
Innihald: Lyfjagagnagrunnurinn inniheldur upplýsingar um rafrænar lyfjaávísanir og allar afgreiðslur á lyfjaávísunum, bæði rafrænum ávísunum og ávísunum á pappír. Frá og með árinu 2013 nær gagnagrunnurinn til allra rafrænna lyfjaávísana utan sjúkrahúsa og til afgreiðslu ávísanaskyldra lyfja landsvísu utan sjúkrahúsa. Gagnagrunnurinn inniheldur ekki lyfjagjafir á sjúkrahúsum.
Tímabil: Rafræn skrá með gögnum frá og með 1. janúar 2002. Nú berast um 3.500.000 færslur á ári í lyfjagagnagrunn.
Uppruni gagna: Upplýsingar af rafrænum lyfjaávísunum ásamt öllum afgreiðslum lyfjaávísana úr lyfjabúðum, lyfjaávísanir í skömmtun á hjúkrunarheimilum auk ávísana á pappír sem skráðir eru í upplýsingakerfi lyfjabúða og sendar rafrænt í lyfjagagnagrunn.
Skráningaratriði: Ýmis atriði er varða lyfjaávísun og afgreiðslu lyfs auk upplýsinga um það lyf sem ávísað/afgreitt er. Skráð er m.a. dagsetning afgreiðslu og afgreiðslustaður, ATC flokkur lyfs, ávísað magn, notkunarleiðbeiningar og ábending auk upplýsinga um ávísanda.
Breytulisti: Lyfjagagnagrunnur - breytulisti
Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Öll Norðurlöndin starfrækja lyfjagagnagrunna sem innihalda gögn á landsvísu. Þeir hafa verið mismunandi lengri í rekstri og þekjun þeirra er mismunandi.
Úrvinnsla og birting: Á vef landlæknis má finna upplýsingar um lyfjanotkun á Íslandi niður á 4. stig ATC flokkunarkerfisins, bæði um fjölda notenda og afgreitt magn lyfja. Að auki er reglubundin sem og ad hoc úrvinnsla sem nýtt er til lyfjaeftirlits. Reglulega er birt umfjöllun um notkun lyfja í tilteknum lyfjaflokkum í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar. Gögn úr lyfjagagnagrunni er mikið nýtt til vísindarannsókna. Slíkar rannsóknir eru háðar samþykki vísindasiðanefndar og skulu tilkynntar til Persónuverndar. Nánar um sögu, uppbyggingu og innihald lyfjagagnagrunns.
Saga: Upphaf lyfjagagnagrunns landlæknis má rekja aftur til ársins 2003 þegar hann var fyrst skilgreindur í lyfjalögum nr. 93/1994, með síðari breytingum. Embætti landlæknis hóf rekstur lyfjagagnagrunns árið 2005 og innihélt grunnurinn þá upplýsingar um öll ávísanaskyld lyf sem afgreidd höfðu verið frá lyfjaverslunum frá upphafi árs 2002. Upplýsingar um afgreidd lyf fluttust rafrænt í Lyfjagagnagrunn í gegnum Tryggingastofnun og síðar Sjúkratryggingar Íslands þar sem þær voru uppfærðar á fjögurra vikna fresti til að byrja með og síðar á tveggja vikna fresti. Breytingar voru gerðar á lyfjalögum árið 2012 sem heimiluðu læknum aðgang að lyfjasögu skjólstæðinga sinna og einstaklingum aðgang að eigin lyfjasögu. Til þess að bregðast við þessu aukna hlutverki lyfjagagnagrunns var byggður upp nýr grunnur sem er uppfærður í rauntíma.