Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku
Leiðbeiningar vegna umsókna
Hægt er að leggja inn umsóknir um endurgreiðslu hvenær sem er innan níu mánaða frá útgáfudegi.Umsækjandi getur unnið með umsókn og bætt við upplýsingum þar til öll gögn eru til staðar.
Mikilvægt er að kynna sér leiðbeiningar um launakostnað:
Gagnlegar ábendingar við gerð umsóknar
Allir kostnaðarliðir séu án virðisaukaskatts.
Eingöngu kostnaður við verk sem hafa verið samþykkt til útgáfu telst endurgreiðsluhæfur. Hugmyndavinna við verk er því ekki endurgreiðsluhæf.
Óbreytt eða mjög lítið breytt endurprent er ekki endurgreiðsluhæft. Ef um endurútgáfu á bók er að ræða þarf umsækjandi að gera grein fyrir á hvern hátt sé um nýtt útgáfuverk að ræða og hvað greinir nýju bókina frá fyrri útgáfum.
Útgefanda ber að halda utan um launakostnað og skráða tíma launamanns við útgáfu bókar í verkbókhaldi. Vinsamlegast aðgreinið vinnu í umsókn eftir tegund, t.d. að vinna við ritstjórn falli undir ritstjórnarlið umsóknar og umbrot/hönnun undir samsvarandi lið o.s.frv.
Í tilfelli innanhússvinnu fastra starfsmanna sendist listi yfir starfsmenn og starfsheiti og hlutfall starfs eða hvort um verktakavinnu er að ræða ef viðkomandi er ekki í fullu starfi. Koma þarf fram: hvenær verk er unnið / tímafjöldi / tímalaun / tegund vinnu.
Endurgreiðsla á auglýsinga- og kynningarkostnaði á einungis við um þann kostnað sem fellur til á næstu fjórum mánuðum eftir útkomu bókar. Mikilvægt er að kostnaðurinn sé rekjanlegur með beinum og augljósum hætti til þeirrar bókar sem sótt er um endurgreiðslu fyrir. Ekki er leyfilegt að taka saman allan auglýsingakostnað vegna birtingar hjá tilteknum miðli og tiltaka áætlaðan hlutfallskostnað viðkomandi bókar. Gott að láta auglýsinguna fylgja umsókninni. Sjá nánar í handbók sjóðsins hvað fellur undir kynningu.
Ef við á, tilgreinið opinbera styrki og tekjur af seldum auglýsingum/kynningum sem birtast í bókinni.
Með ritröð er átt við safn ritverka sem gefin eru út í mörgum bindum í heild í tímaröð eða samtímis með sameiginlegum heildartitli, undir- eða yfirtitli, en hvert bindi er sjálfstæð heild. Öll verk ritraðarinnar skulu vera af sama toga. Með umsókninni undir liðnum ritröð þarf umsækjandi að gera grein fyrir á hvern hátt bækurnar uppfylla skilyrði ritraðar, t.d. ef öll ritröðin kemur ekki út samtímis þá hvað ritröðin verður löng og hvenær henni ljúki. Sjá nánar í handbók.
Sjá einnig greinargerð með frumvarpi til laga um stuðninginn:
Þjónustuaðili
Rannsóknamiðstöð Íslands