Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku

Greiðslur og skýrsluskil

Endurgreiðsluhæfur kostnaður vegna bókar skal nema að lágmarki einni milljón kr. Undantekning frá þessu er kostnaður vegna útgáfu barna-, ungmenna- og ljóðabóka, sem skal nema a.m.k. 500 þúsund kr., og bókar á stafrænum miðli, svo sem raf- og hljóðbókar, en hann skal nema a.m.k. 200 þúsund kr. Ef bókaútgefandi gefur út sömu bók á fleiri en einum miðli skal útgefandi halda kostnaði við hvern og einn miðil skýrt aðgreindum. Óheimilt er að krefjast endurgreiðslu oftar en einu sinni vegna sama kostnaðar. 

Eftirfarandi kostnaðaliðir eru hæfir til 25% endurgreiðslu:

  1. Beinn launakostnaður og verktakagreiðslur. Þetta á við ritstjórn verks sem samþykkt hefur verið til útgáfu, prófarkalestrar, þýðingar, skýringar- og ljósmynda, og hönnunar og vinnu við innsíður og kápu.

  2. Laun höfundar eða rétthafa. Þetta eru laun fram að móttöku degi umsóknar um endurgreiðslu.

  3. Prentkostnaður og hliðstæður kostnaður vegna útgáfu í öðru formi en á prenti. Þetta nær til prentunar á verkinu og samskipti við prentsmiðju og aðra framleiðsluaðila svo sem tölvuvinnu vegna rafrænnar útgáfu og upplestri hljóðbókar í löndum á EES-svæðinu, innan EFTA eða í Færeyjum.

  4. Birting í Bókatíðindum. Skal tilgreina kostnaðarhlutfall umræddrar bókar svo hægt sé að rekja kostnað til viðkomandi verks.

  5. Kostnaður við birtingar auglýsinga sem fellur til á næstu fjórum mánuðum eftir útgáfudag. Þetta nær til birtinga í ljósvaka- og prentmiðlum sem og á neti. Lykilatriði að hægt sé að rekja kostnað til viðkomandi verks. Þegar margar bækur eru auglýstar í sömu auglýsingu skal tilgreina kostnaðarhlutfall umræddrar bókar. Gott að láta auglýsinguna fylgja umsókninni.

  6. Kynningarkostnaður sem tengist kostaðri umræðu og sérstökum atburðum til kynningar á verkinu sem sótt er um, þó ekki kynningareintök og sendingar, bifreiðakostnað, mat og drykk. Almennar kynningar, s.s. bókamessur, koma ekki til greina.

Sé útgefandi einstaklingur (þ.e. ekki félag) er honum heimilt að leggja eigin laun til grundvallar endurgreiðsluhæfum kostnaði, þ.e. að reikna sér laun sem samsvara einum mánaðarlaunum listamanna, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um listamannalaun (upphæð listamannalauna er uppreiknuð á hverju ári; sjá nánar síðustu úthlutun á vef listamannalauna).