Fara beint í efnið

Strandveiðileyfi

Umsókn um veiðileyfi - einyrkjar & prókúruhafar

Að kaupa strandveiðibát

Það er að mörgu að huga þegar kaupa á bát til strandveiða þar sem margt getur komið í veg fyrir að báturinn geti fengið strandveiðileyfi eða verið á því svæði sem kaupandi ætlar að veiða á. Það sem hér á eftir kemur miðar við þá meginreglur sem um strandveiðar gilda en athugið að reglurnar geta breyst á milli strandveiðitímabila. Í grunninn eru það nokkrar spurningar sem svara þarf neitandi ef kaupa á bát til strandveiða:

  1. Er báturinn þróunarsjóðsbátur?

  2. Á eigandi eða útgerð aðild að öðru strandveiðileyfi?

  3. Á eftir að afsala bátnum til nýs eiganda?

  4. Er báturinn án haffærisskírteinis til fiskveiða?

  5. Hefur báturinn strandveiðileyfi?

  6. Verður báturinn í neikvæðri millifærslustöðu eftir kaupin?

Er báturinn þróunarsjóðsbátur?

Bátar sem eru þróunarsjóðsbátar geta ekki fengið leyfi til atvinnuveiða sama hvaða leyfi um ræðir. Hægt er að sjá hvort bátur sé þróunarsjóðsbátur með því að leita að skipinu á vefsíðu Fiskistofu og skoða skipasögu skipsins. Ef útgerðarflokkur skipsins hefur einhvern tímann verið þróunarsjóður þá hefur skipið verið úrelt úr fiskveiðistjórnunarkerfinu og getur ekki farið á strandveiðar.

Á eigandi eða útgerð aðild að öðru strandveiðileyfi?

Eigandi eða útgerð strandveiðibáts má ekki hafa aðild að nema einu strandveiðileyfi. Ef fyrirtæki er eigandi eða útgerðaraðili þá má fyrirtækið eða eigendur þess ekki eiga aðild að öðru strandveiðileyfi. Ef breyting á eignarhaldi eða útgerð skips leiðir til þess að sami aðili tengist tveimur leyfum skal Fiskistofa fella niður annað leyfið. Hægt er að sjá útgerð skips hjá Fiskistofu ef útgerðarflokkur þess er ekki Núllflokkur og ef skipið er í núllflokki þá er það án útgerðar. Samgöngustofa heldur utan um hverjir eigendur skips eru hverju sinni.

Það á eftir að afsala bátnum til nýs eiganda?

Þetta er eingöngu vandamál ef seljandinn ætlar sér að fara á strandveiðar á öðrum bát eða á aðild að strandveiðileyfi annars báts. Ef kaup á bát eiga sér stað áður en strandveiðitímabilið hefst er mikilvægt að hafa það í huga að ef afsal hefur ekki á sér stað þá teljast bæði kaupandi og seljandi eigendur bátsins. Það þýðir að ef skipið fær veiðileyfi þá hafa bæði kaupandi og seljandi aðild að því veiðileyfi og geta ekki fengið veiðileyfi á annan bát.

Er báturinn án haffærisskírteinis til fiskveiða?

Bátur verður að hafa haffærisskírteini til fiskveiða til að fá strandveiðileyfi. Samgöngustofa veitir haffærisskírteini og getur veitt upplýsingar um hvort skip hafi haffærisskírteini, hvort þau séu til fiskveiða og hvað þarf til að fá skírteini á báta.

Báturinn hefur strandveiðileyfi?

Það þarf ekki að vera vandamál að báturinn hafi strandveiðileyfi. Ef báturinn hefur strandveiðileyfi þá er mikilvægt að hafa það í huga að það fylgir bátnum til nýs eiganda og hann getur ekki breytt leyfinu. Þetta þýðir að hann getur ekki farið á annað strandveiðisvæði og seljandinn getur ekki sótt um veiðileyfi á annan bát þar sem hann má ekki eiga aðild að öðru strandveiðileyfi. Hægt er að sjá hvort báturinn hafi strandveiðileyfi og á hvaða svæði á vefsíðu Fiskistofu.

Er báturinn í neikvæðri millifærslustöðu?

Ef seljandi þarf að tæma bát við sölu getur það leitt til þess að skipið getur ekki farið á strandveiðar. Bátar sem hafa flutt meiri aflaheimildir frá sér en til sín geta ekki farið á strandveiðar. Hægt er að sjá stöðu skips með því að skoða stöðu skips þar sem „Milli skipa“ má ekki vera í neikvæðir stöðu í þorskígildum. Hægt er að leiðrétta þessa stöðu með því að færa aflamark á skipið en þá verður að hafa í huga að skip sem hafa fengið strandveiðileyfi geta ekki farið í neikvæða stöðu út fiskveiðiárið. Það á við þó skipið segi sig úr strandveiðikerfinu.

Umsókn um veiðileyfi - einyrkjar & prókúruhafar

Þjónustuaðili

Fiski­stofa