Sættum okkur ekki við einelti, ofbeldi og áreitni á vinnustöðum
8. nóvember 2021
Forvarnardagur gegn einelti á vinnustöðum er í dag, 8. nóvember. Af því tilefni fjalla þær Margrét Ingólfsdóttir sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu og Svava Jónsdóttir, sviðsstjóri heilsu- og umhverfissviðs hjá Vinnueftirlitinu, um hvað vinnustaðir geta gert til að koma í veg fyrir að slíkt fái þrifist í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Greinin er jafnframt meðfylgjandi.
Undanfarin ár hefur félagslegt vinnuumhverfi hlotið aukna athygli og mikilvægi þess verið undirstrikað.
Vandamál á borð við einelti, ofbeldi og áreitni á vinnustöðum hafa orðið sýnilegri og í kjölfarið hefur krafan um að þeir skapi góðan félagslegan aðbúnað aukist.
Að skapa gott félagslegt vinnuumhverfi er aðkallandi verkefni sem vinnustaðir þurfa að horfast í augu við, enda hafa þeir bæði lagalega og samfélagslega skyldu til að stuðla að öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks.
Menning vinnustaða
Góð vinnustaðamenning er forsenda þess að viðhalda og stuðla að öruggum og heilbrigðum samskiptum á vinnustöðum því hún setur ákveðin viðmið um hvers sé vænst af starfsfólki og hvernig sé viðeigandi að hegða sér, tjá tilfinningar og eiga samskipti við aðra. Vinnustaðamenning felur ekki aðeins í sér þær rótgrónu hugmyndir og þær hefðir sem eru uppi á yfirborðinu og hægt er að sjá til dæmis í hegðun, samskiptum, framkomu og ákvarðanatöku heldur einnig þær upplifanir og þær tilfinningar sem geta kraumað undir yfirborðinu og erfiðara er að bera kennsl á.
Neikvæðar tilfinningar og ósögð orð sem finna sér ekki viðeigandi farveg og krauma undir niðri, geta skapað vandamál sem vinnustaðir fá aftur og aftur í fangið.
Þau gildi og viðmið sem menning vinnustaða heldur á lofti geta stuðlað að góðum eða slæmum siðum á vinnustöðum og haft veruleg áhrif á félagslegan aðbúnað í vinnuumhverfinu. Alvarleg vandamál eins og einelti og áreitni eru enn hluti af þeim raunveruleika sem blasir við okkur í vinnuumhverfinu og geta verið afsprengi neikvæðrar vinnustaðamenningar.Félagslega vinnuumhverfið getur vafist fyrir fólki, enda upplifun og líðan einstaklinga margslungið og flókið fyrirbæri.
Það er vissulega ekki hægt að stjórna tilfinningum og upplifunum annarra, en það er hægt að ramma inn og stýra samskiptum og skipulagi vinnuumhverfisins, svo þar rúmist síður einelti, áreitni og ofbeldi.
Skipulag
Skipulag og hönnun vinnurýmis getur falið í sér áhættu og álag sem getur leitt til neikvæðrar vinnumenningar og óheilsusamlegs vinnuumhverfis. Það er því afar mikilvægt að vinnustaðir skoði hvaða áhrif vinnuskipulag, dreifing verkefna og verklag hefur á öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks.
Stuðla þarf að því að vinnutími, vaktafyrirkomulag, einhæfni og/eða fjölbreytni verkefna styðji við þann félagslega aðbúnað sem leitast er við að skapa.Vinnuumhverfið samanstendur af fjölbreyttri flóru starfsfólks sem starfar saman í ólíkum teymum og hópum.
Taka þarf mið af samsetningu starfshópa og uppbyggingu teyma og huga vel að undirbúningi og innleiðingu breytinga á vinnustöðum í því samhengi. Góð nýliðafræðsla og símenntun leggur grunninn að góðri vinnustaðamenningu sem styður við gott félagslegt vinnuumhverfi.
Samskipti
Mikilvægt er að vinnustaðir setji sér viðmið eða samskiptagildi í samvinnu við starfsfólk og leggi þannig grunninn að sameiginlegum skilningi á þeim þáttum sem skipta máli í félagslega vinnuumhverfinu.
Gott upplýsingaflæði og skýrar boðleiðir þurfa að vera til staðar til að tryggja árangursríka miðlun á þeim menningarlegu áherslum sem sammælst hefur verið um að skapa. Opinská umræða um hefðir á vinnustaðnum getur opnað augu starfsfólks fyrir samskiptavanda, einelti og/eða öðrum vandamálum sem geta grasserað í vinnuumhverfinu.
En stöðugt samtal getur auk þess lyft upp þeim gildum og viðmiðum sem sóst er eftir að festa í sessi. Regluleg starfsmannasamtöl, formleg eða óformleg snerpusamtöl eða spjall um verkefni eða líðan fólks eru mikilvægur liður í því að stuðla að sameiginlegum skilningi á því sem skiptir máli svo hægt sé að bregðast við vandamálum og bæta vinnuumhverfið.
Heilbrigður ágreiningur getur skapað frjósaman jarðveg fyrir nýjar hugmyndir en línan yfir í neikvæð samskipti getur verið þunn og því þurfa allir að þekkja mörkin og geta risið upp ef ekki er starfað samkvæmt þeim samskiptagildum sem sammælst hefur verið um að fara eftir. Vinnustaðir þurfa að styðja við starfsfólk og veita uppbyggilega endurgjöf þar sem tekið er markvisst á ágreiningi og niðurrifi áður en í óefni er komið.
Forvarnir
Allir vinnustaðir eiga að hafa viðbragðsáætlun við einelti, áreitni og ofbeldi og tryggja að starfsfólk þekki til viðeigandi ferla og boðleiða ef slík mál koma upp.
Mikilvægt er að stjórnendur fái fræðslu um það hvernig megi fyrirbyggja og takast á við ágreining og valdbeitingu í vinnuumhverfinu og þjálfun í að taka erfið samtöl, því það lærist ekki af sjálfu sér.Það er ekki alltaf auðvelt að brjóta upp óæskileg samskipti eða hefðir sem skapast hafa á vinnustöðum og hefjast handa við að skapa nýjar, en forsenda þess að vel takist til er að sú vinna fari fram í samvinnu við starfsfólk. Það er enginn einn sem breytir vinnustaðahefðum.
Það er sameiginlegt verkefni stjórnenda og starfsfólks að skapa góða vinnustaðamenningu þar sem einelti, áreitni og ofbeldi fær ekki að þrífast. Vinnueftirlitið heldur ráðstefnuna Vinnuvernd-ávinningur til framtíðar á Grand hóteli þann 19. nóvember nk. þar sem meðal annars verður fjallað um félagslegt vinnuumhverfi.