Fara beint í efnið
Útlendingastofnun Forsíða
Útlendingastofnun Forsíða

Útlendingastofnun

Útlendingastofnun tengist stafrænu pósthólfi Ísland.is

3. október 2024

Í fyrsta áfanga verða samskipti við umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt stafræn

Pósthólf fyrir einstaklinga

Útlendingastofnun hefur tekið í notkun stafrænt pósthólf Ísland.is í samskiptum við umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt. Þetta þýðir að stofnunin mun ekki lengur senda umsækjendum bréf með tölvupósti eða hefðbundnum pósti, svo sem beiðnir um frekari gögn, tilkynningar um veitingu ríkisborgararéttar eða synjanir umsókna.

Allir einstaklingar með íslenska kennitölu hafa aðgang að sínu eigin stafræna pósthólfi á Ísland.is. Hægt er að stilla pósthólfið þannig að það sendi hnipp til eiganda þess þegar póstur hefur borist.

Athygli er vakin á því að þegar gögn eru aðgengileg í pósthólfi teljast þau birt viðtakanda. Ekki er nauðsynlegt að viðkomandi hafi skráð sig inn í pósthólfið og kynnt sér gögnin, heldur teljast gögnin birt frá og með því tímamarki sem þau voru gerð aðgengileg í pósthólfinu og viðkomandi hefði getað kynnt sér gögnin. Frestir sem nefndir eru í bréfum frá stofnuninni byrja þar af leiðandi að telja frá og með þeim degi þegar bréfin voru aðgengileg í pósthólfinu. Þetta á til dæmis við um fresti til að senda stofnuninni frekari gögn fyrir vinnslu umsókna eða fresti til að kæra ákvörðun stofnunarinnar.

Útlendingastofnun hefur tekið sex af níu stafrænum skrefum skilgreindum af Stafrænu Íslandi. Samþætting við stafræna pósthólfið er mikilvægt skref sem eykur skilvirkni við afgreiðslu umsókna og dregur úr kostnaði. Þá bætir Pósthólfið einnig þjónustu við umsækjendur sem nú fá bréf frá stofnuninni með öruggari og hraðari hætti en áður.

Í næsta áfanga verður pósthólfið tekið í notkun í samskiptum við umsækjendur um dvalarleyfi.