Fara beint í efnið

Aldrei fleiri umsóknir um vernd

6. febrúar 2023

Flestir umsækjendur frá Úkraínu og Venesúela

UAV 2016-2022

Umsóknir um alþjóðlega vernd árið 2022 voru 4.518. Rúmur helmingur umsókna kom frá fólki á flótta frá Úkraínu í kjölfar innrásar Rússa inn í landið þann 24. febrúar.

Umsóknir frá ríkisborgurum annarra ríkja en Úkraínu voru 2.173. Það eru nærri tvisvar sinnum fleiri umsóknir en árið 2016, sem var stærsta umsóknaárið hingað til. Árið 2022 var því metár í fjölda umsókna um vernd hvort sem umsóknir um vernd vegna fjöldaflótta frá Úkraínu eru taldar með eða ekki.

UAV 2022

Mestur fjöldi umsókna vegna fjöldaflótta barst fyrstu vikurnar eftir innrásina í lok febrúar en frá maí hafa að jafnaði komið um 180 Úkraínumenn til landsins á mánuði. Fjöldi umsókna frá ríkisborgurum annarra ríkja, einkum Venesúela, fjölgaði jafnt og þétt á síðari hluta ársins og var mestur í desember.

UAV 2016-2022 - oruggogonnur

Frá árinu 2016 hefur orðið gjörólík þróun í fjölda umsókna um vernd eftir uppruna umsækjenda. Annars vegar hefur umsækjendum frá svokölluðum öruggum upprunaríkjum, það er ríkjum á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki, fækkað, úr 773 í 76 árið 2022. Hins vegar hefur fjöldi umsókna frá ríkisborgurum annarra en öruggra upprunaríkja margfaldast á tímabilinu, úr 358 í 2.097.

UAV 2019-2022

Mestu hefur munað um fjölgun umsókna frá ríkisborgurum Venesúela undanfarin ár. Þær voru 1.199 árið 2022 eða ríflega þrisvar sinnum fleiri en árið á undan. Umsóknum frá einstaklingum sem þegar njóta verndar í öðru ríki fjölgaði um tæpt hundrað milli ára, úr 203 í 302, og umsækjendum frá öðrum ríkjum rúmlega tvöfaldaðist, úr 282 í 596. Með umsækjendum frá öðrum ríkjum er hér átt við þá sem koma ekki frá öruggu upprunaríki, ekki frá Venesúela og njóta ekki verndar í öðru landi.

Fyrir utan Úkraínu (2.345) og Venesúela (1.199) komu stærstu hópar umsækjenda árið 2022 frá Palestínu (232), Sómalíu (100), Sýrlandi (84) og Írak (73). Í heild höfðu umsækjendur ríkisfang í 63 ólíkum löndum, sjá nánara niðurbrot hér.

UAV kyn 2022

Umsóknir voru lagðar fram af 3.448 fullorðnum og 1.070 börnum. Karlkyns umsækjendur voru 2.284, kvenkyns 2.231 og þrír kynsegin/annað. Hægt er að skoða kynjaskiptinguna eftir ríkisfangi hér.