Fara beint í efnið
Tryggingastofnun Forsíða
Tryggingastofnun Forsíða

Tryggingastofnun

Breytingar á lögum um almannatryggingar

27. apríl 2023

Nokkrar breytingar voru gerðar á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð nú í apríl. Hér er yfirlit yfir þær helstu.

Tryggingastofnun-Logo

Réttindi við upphaf töku lífeyris

Breytingar verða á því hvenær fólk öðlast rétt til örorkulífeyris á Íslandi og einnig hversu lengi það þarf að hafa átt lögheimili hér til að geta sótt um endurhæfingarlífeyri.

Þau sem sækja um örorkulífeyri þurfa að hafa verið búsett hér á landi samfellt í a.m.k. þrjú síðustu árin áður en örorka er metin 75%, líkt og verið hefur. Nú verður hins vegar miðað við dagsetningu örorkumats í stað dagsetningu umsóknar sem er ívilnandi fyrir þau sem sækja um.

Einstaklingur öðlast rétt til örorkulífeyris þegar hann hefur verið búsettur á Íslandi samfellt í 12 mánuði áður en örorka er metin 75%, ef viðkomandi hefur einnig eldri sögu um búsetu á Íslandi, þ.e. annað hvort verið búsettur

  • hér á landi í a.m.k. 20 ár eftir 16 ára aldur, eða

  • að lágmarki í fimm ár eftir 16 ára aldur enda hafi búseta erlendis eftir 16 ára aldur ekki staðið lengur en í fimm ár.

Með þessu móti er komið til móts við þau sem hafa búið tímabundið erlendis.

Ungmenni sem búa hér á landi við 18 ára aldur og fá 75% örorkumat frá þeim tíma munu eiga rétt til örorkulífeyris, burtséð frá lengd búsetu.

Til að geta sótt um endurhæfingarlífeyri þarf einstaklingur nú að hafa átt lögheimili hér á landi í 12 mánuði samfellt áður en greiðslur geta hafist, í stað almennu reglunnar um þriggja ára búsetu áður.

Breytt meðferð erlendra lífeyristekna

Lífeyrir almannatrygginga frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við verður skilgreindur með öðrum hætti en verið hefur. Meginreglan verður sú að lífeyrir almannatrygginga, sem aðildarríki EES samningsins hafa skilgreint sem slíkan til Evrópusambandsins, verður skilgreindur sem bætur sömu tegundar og munu þannig ekki koma til lækkunar á lífeyri almannatrygginga hér á landi. Ávallt þarf þó að meta hvort tilgangur, grundvöllur útreiknings og skilyrði bótanna séu þau sömu. Einnig þarf ávallt að líta til nánari ákvæða milliríkjasamninga.

Mál þeirra sem eru nú þegar með lífeyrisgreiðslur frá TR og fá einnig lífeyrisgreiðslur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við verða endurskoðuð með tilliti til þessara breytinga. Niðurstöður þeirrar endurskoðunar munu berast til viðkomandi á næstu mánuðum. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki nú í haust. Breytingin gildir um útreikning lífeyrisgreiðslna almannatrygginga frá og með 1. maí 2023.

Mæðra- og feðralaun teljast ekki til tekna við útreikning framfærsluuppbótar

Mæðra- og feðralaun munu ekki teljast til tekna við útreikning á sérstakri framfærsluuppbót frá og með 1. maí 2023 og koma þar með ekki lengur til frádráttar á framfærsluuppbótinni. Heimilt er að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem búsett eru á Íslandi, hafa á framfæri tvö börn sín eða fleiri undir 18 ára aldri, og eiga sama lögheimili og börnin sem greitt er með. Þau sem eru með sérstaka framfærsluuppbót og mæðra- og feðralaun frá TR munu fá nánari upplýsingar með bréfi sem verður birt á Mínum síðum TR.

Aldursviðbót í stað aldurstengdrar örorkuuppbótar

Aldurstengd örorkuuppbót eru greiðslur sem miðast við þann aldur þegar einstaklingur fékk sitt fyrsta örorkumat. Þær greiðslur nefnast aldursviðbót í kjölfar lagabreytinganna.

Breytt vaxtaviðmið

Ákvarðanir um vexti á of- og vangreiðslur taka breytingum þannig að í stað fastra vaxta verður miðað við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma.

Breytt uppsetning laga um almannatryggingar

Heildarframsetning laga um almannatryggingar breytist, en sérstakur kafli er nú um ellilífeyri og tengdar greiðslur og sérstakur kafli um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Lög um almannatryggingar og lög um félagslega aðstoð eftir breytingarnar sem tóku gildi 12. apríl sl. má sjá hér:

Lög um almannatryggingar nr. 100/2007 með áorðnum breytingum.

Lög um félagslega aðstoð nr. 99/2007 með áorðnum breytingum.