Hollvinasamtök Þjóðskjalasafns gera upp starfsárið
5. nóvember 2024
Aðalfundur Hollvinasamtaka Þjóðskjalasafns Íslands var haldinn í húsakynnum safnsins miðvikudaginn 30. október síðastliðinn. Skýrsla starfsársins var kynnt og kjöri stjórnar lýst. Að loknum aðalfundarstörfum kynnti fagstjóri upplýsingaþjónustu Þjóðskjalasafns starfsemi einingarinnar.
Hollvinasamtök Þjóðskjalasafns Íslands voru formlega stofnuð á hátíðarfundi safnsins sem haldinn var 4. apríl 2022 í tilefni af 140 ára afmæli safnsins. Í lögum Hollvinasamtakanna segir að þau eigi;
að vera vettvangur fyrir sjálfboðaliðastörf í tengslum við verkefni safnsins
að styðja við verkefni á vegum safnsins, meðal annars söfnun skjala frá einkaaðilum
að stuðla að úrbótum í varðveislu skjala með bættum húsakosti og búnaði
að bæta aðgengi almennings að safnkosti á lestrarsal og með fjarmiðlun
að hvetja til rannsókna og samstarfs við aðrar stofnanir, fyrirtæki og háskóla
að hafa gott samband við önnur skjalasöfn og hliðstæð samtök
Megintilgangur samtakanna er að kynna starfsemi Þjóðskjalasafnsins, treysta tengsl almennings við safnið og auka skilning á mikilvægi varðveislu heimilda um stjórnskipan, stjórnsýslu, borgaraleg réttindi og sögu íslensku þjóðarinnar. Hollvinasamtökin eru opin öllum og hægt er að gerast félagi hér.
Fundarstjórn var í höndum Marðar Árnasonar og fundarritari var Sigrún Magnúsdóttir. Formaður samtakanna, Steinunn Valdís Óskarsdóttir kynnti skýrslu starfsársins og helstu áherslur stjórnar. Stjórn var kjörin lítið breytt frá fyrra ári og er áfram skipuð Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Merði Árnasyni, Ólöfu Garðarsdóttur, Sigrúnu Magnúsdóttur og Þórunni Guðmundsdóttur. Til vara er Jóhanna Gunnlaugsdóttir. Guðjón Friðriksson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og voru honum þökkuð góð störf.
Að loknum aðalfundarstörfum kynnti Benedikt Eyþórsson, fagstjóri upplýsingaþjónustu Þjóðskjalasafns. Starfsfólk upplýsingaþjónustu veitir aðgang að gögnum í vörslu safnsins og aðstoðar við leit að upplýsingum. Aðgengi að gögnum er bundið lögum um opinber skjalasöfn og upplýsingalögum og að mörgu þarf að hyggja þegar almenningur óskar eftir gögnum til skoðunar.
Formaður Hollvinasamtakanna, Steinunn Valdís Óskarsdóttir kynnir fundarmönnum ársskýrslu 2024.