Markmið
Hvað breytist?
Hvað breytist með stafrænni þróun hins opinbera? Hvert viljum við ná? Við viljum að stafræn þjónusta sé aðgengileg, sniðin að notandanum og með skýra framtíðarsýn fyrir þig.
Fyrir fjölskylduna
Lífið færir okkur margar stórar stundir og það að stofna til fjölskyldu er ein þeirra. Á þeim tímamótum þurfum við öll á einn eða annan hátt að nýta okkur þjónustu hins opinbera. Sambúð, hjónaband, meðganga, fæðing, leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar – allt á þetta sinn stað og að sama skapi fylgja þessu öllu samskipti við ólíkar stofnanir sem hafa ólíku hlutverki að gegna.
Á næstu árum mun stjórnsýslan öll og sú stafræna þjónusta sem hún veitir taka umfangsmiklum breytingum sem allar miða að því að þú getir nálgast hana á einfaldan og hraðvirkan hátt á einum stað, í gegnum Ísland.is. Í sumum tilvikum hafa stóru skrefin þegar verið tekin en í öðrum þarf enn að prenta út eyðublöð og flakka á milli staða til að koma þeim til skila. Því ætlum við að breyta.
Verðandi foreldrar munu hér fá hnitmiðaðar og skýrar upplýsingar um réttindi og þjónustu á meðgöngu og eftir fæðingu. Á slíkum tímamótum er spennan mikil og fæst okkar sérstaklega áhugasöm um að eyða dýrmætum tíma í að flakka á milli vefsíðna til að finna út hver næstu skref eru þegar barnið er komið í heiminn. Þess mun ekki þurfa af því að Ísland.is lætur þig vita af ungbarnaverndinni, tímabókunum hjá heilbrigðisstofnun og að sjálfsögðu minna þig á þegar tímafrestur fyrir mikilvæg atriði eins og nafngjöf er að renna út.
Og eftir því sem lífi lítillar – eða stórrar – fjölskyldu vindur fram verður Ísland.is eini staðurinn sem þarf að leita til þegar fjölskyldan þarf á þjónustu stofnana ríkisins að halda: aðstoð sérfræðinga, vegabréfin að renna út, þegar börnin fara í skóla og þegar foreldrarnir fara að huga að starfslokum.
Ísland.is kemur til með að gefa þér þær upplýsingar sem þú þarft þegar þú þarft þær.
Fyrir einstaklinga
Það reynir á þolinmæðina að þræða í gegnum ótal upplýsingasíður, umsóknir og eyðublöð fram og til baka milli stofnana til þess eins að koma til dæmis prófskírteini frá einum stað til annars. Það flokkum við alls ekki sem stafræna þjónustu.
Það sem við köllum framúrskarandi stafræna þjónustu er þegar við gerum þér kleift að sjá um alla þessa einföldu hluti á Ísland.is; þegar Ísland.is sendir þér tilkynningu í appi um að þú þurfir að endurnýja vegabréfið þitt eða að þú eigir tíma hjá lækni kl. 9:40 í fyrramálið. Og það er einmitt það sem við ætlum að gera á næstu árum.
Á Ísland.is átt þú að geta í sjálfsafgreiðslu uppfært þau gögn sem til eru um þig hjá hinu opinbera. Að sama skapi ættirðu líka að geta sótt gögn sem þú þarft á að halda af því að stundum þarf bara að sækja sakavottorð til að skila með atvinnuumsókn – það geturðu reyndar gert nú þegar – en þú gætir þurft að sækja upplýsingar um fasteignir, bifreiðar, réttindi, námsferla, stöðu við ríkissjóð eða þau leyfi sem þú hefur.
Ísland.is ætlar að einfalda þetta allt: upplýsingaleitina, umsóknirnar og ferðalagið milli stofnananna. Þar geturðu haft beint samband við þjónustufulltrúa sem beinir þér á réttan stað þar sem þú getur afgreitt málið á örfáum mínútum. Og það skiptir engu máli hver þú ert, stafræn þjónusta á að vera aðgengileg öllum og allir hópar samfélagsins eiga að geta lausnir Ísland.is – líka eldra fólk, fólk með fötlun og þau sem eiga af einhverjum ástæðum í erfiðleikum með að nýta sér stafræna þjónustu. Ísland.is verður vefur sem er aðgengilegur öllum.
Þegar það er komið fer svo sannarlega minni tími í pappírsvinnu – tími sem þú getur notað í eitthvað miklu skemmtilegra.
Fyrir stofnanir
Stafræn þróun Ísland.is er að sjálfsögðu til bóta fyrir fólkið í landinu, en ekki síður fyrir stofnanirnar sem veita þjónustuna sem það sækir. Þessi stafræna þróun gefur stofnununum raunveruleg tækifæri í uppbyggingu til framtíðar.
Þær breytingar sem Ísland.is vinnur nú að miða allar að því að hjálpa stofnunum að byggja upp innviði og hver einasta stofnun ríkisins kemur til með að geta nýtt Ísland.is til að bæta og efla þjónustu, gera hana aðgengilegri og notendavænni – ekki bara gagnvart þeim sem nýta sér þjónustuna heldur líka gagnvart þeim sem veita hana.
Stofnanir eiga að geta treyst því að þjónusta þeirra sé aðgengileg öllum, örugg og hraðvirk, að gögn séu örugg, að umsóknarferli og samskipti séu einföld og skýr með aðgangi að nýjustu uppfærslum á virkni í stöðugri þróun. Það kemur til með að skila sér í lægri rekstrarkostnaði og skilvirkari starfsemi allra stofnana ríkisins.
Það er jú töluvert fljótlegra að birta rafræn skjöl þar sem notandinn kemst til að skoða þau og skrifa undir strax en að senda þau í föstu formi landshluta á milli.
Fyrir fyrirtæki
Fyrirtækjarekstur er alls ekki einfaldur þegar kemur að öllu sem þarf að sækja um og standa skil á til hins opinbera. Til að byrja með þarf auðvitað að stofna fyrirtækið, skrá það og sækja um rekstrarleyfi, sannvottunarleyfi eða annars konar leyfi sem gera fyrirtækinu kleift að hefja starfsemina af fullum krafti. Eftir það taka skattar og skilagreinar við, launagreiðslur og annað tengt starfsfólkinu.
Þjónusta Ísland.is við fyrirtæki mun í framtíðinni taka stórum breytingum þar sem fyrirtækin geta einmitt sótt þjónustuna og gengið frá sínum málum á einum stað. Það verður auðveldara að fylgjast með stöðu við ríkissjóð, skila og sækja þær upplýsingar sem þarf varðandi lög og reglur í fyrirtækjarekstri á Íslandi.
Á Ísland.is koma fyrirtæki til með að geta sótt ráðgjöf um alla þjónustu hins opinbera sem tengist rekstrinum. Sprotafyrirtæki eiga að geta fengið upplýsingar um styrki á vegum ríkisins og öll fyrirtæki munu njóta ávinnings í formi hagræðingar með styttri og skilvirkari málsmeðferð innan kerfisins.
Fyrir fyrirtæki verður Ísland.is eini aðgangurinn sem þarf að muna til að ganga frá öllum málum.