Fara beint í efnið

Stafrænt Ísland

Fagleg nálgun

Aðgengi fyrir alla

Við tryggjum að þjónusta Ísland.is sé aðgengileg fyrir alla notendur. Það þýðir að lausnin þarf einnig að gagnast fólki með fötlun, eldra fólki eða fólki sem á í erfiðleikum með að nýta sér stafræna þjónustu. Við vinnum með sérfræðingum á þessu sviði og leggjum mikla áherslu á aðgengi í allri þróun.

Notendamiðuð nálgun

Við vinnum út frá þeirri hugmyndafræði að mesti ávinningurinn felist í lausnum sem miðast við að gera upplifun notanda eins góða og mögulegt er. Við viljum bjóða borgurum einfalda þjónustu í samskiptum við hið opinbera og hverfa frá því fyrirkomulagi að notendur þurfi að sækja þjónustu til margra mismunandi stofnana.

Rafgræn framtíð

Stafræn þróun hefur jákvæð umhverfisáhrif. Með því að bjóða upp á stafræna þjónustu drögum við úr pappírsnotkun og fækkum bílferðum almennings á milli stofnana ríkisins.

Opinn og frjáls hugbúnaður

Við höfum opnað allan kóða sem er skrifaður fyrir nýjan vef Ísland.is. Markmiðið er að öll hugbúnaðarþróun á okkar vegum verði opin og frjáls, enda sameign okkar allra.

Öryggi og persónuvernd

Lausnir Ísland.is geta geymt viðkvæm persónuleg gögn. Því er gríðarlega mikilvægt að hafa öryggismál í öndvegi á öllum stigum þróunar. Við notum ekki greiningartól sem safna persónugreinanlegum gögnum. Reglulegt eftirlit verður með öllum lausnum þróuðum af Stafrænu Íslandi þar sem þriðji aðili tekur út lausnirnar til að fyrirbyggja ófyrirséða veikleika.