Mikil ánægja með þjónustu heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu
3. júní 2022
Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) létu nýverið kanna ánægju og traust meðal notenda heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Helstu niðurstöður voru þær að 72,3% einstaklinga bera mikið traust til heilsugæslunnar, 76,5% eru ánægð með þjónustuna og 87,2% svarenda töldu viðmót og framkomu starfsfólks almennt gott. Þessar niðurstöður eru svipaðar og komu fram í sambærilegri könnun á árinu 2019.
Það sem er almennt álitið brýnast að bæta í þjónustu heilsugæslustöðva er að bið eftir þjónustu verði styttri en 75,1% þeirra sem tóku þátt í könnuninni kalla eftir því. Tæplega helmingur sagðist hafa fengið þjónustu innan hæfilegs tíma. Rúm 50% svarenda telja mikilvægt að auðvelda aðgengi að læknum í síma, 35,9% vilja auka rafræna þjónustu og 21,9% telja brýnt að geta skráð sig á fastan heimilislækni. Niðurstöður könnunarinnar sýna að almennt hefur heilsugæslan staðið sig mjög vel þrátt fyrir gríðarlegt álag síðustu ár í covid heimsfaraldrinum.
Mikil ánægja með heilsugæslustöðvar alls staðar á höfuðborgarsvæðinu
Sjö heilsugæslustöðvar raða sér í efstu sætin í flestum spurningum. Það eru heilsugæslustöðvarnar Lágmúla, Salahverfi, Höfða, Árbæ, Urðarhvarfi, Seltjarnarnesi og Mjódd. Hafa verður í huga við samanburð á milli stöðva að ýmislegt getur haft áhrif á þjónustu einstakra stöðva á því tímabili sem er skoðað, eins og t.d. mannekla, veikindi starfsmanna o.fl.
Þjónustukönnun sem þessi er liður í reglulegu eftirliti Sjúkratrygginga með þjónustu sem veitt er á grundvelli samninga við stofnunina. Niðurstöðurnar hafa þegar verið kynntar rekstraraðilum heilsugæslanna og verða í kjölfarið nýttar bæði af Sjúkratryggingum og einstökum þjónustuveitendum til að þróa og efla þjónustuna enn frekar.
Maskína framkvæmdi könnunina fyrir Sjúkratryggingar á tímabilinu 2. mars til 26. apríl 2022. Slembiúrtak var gert meðal þeirra sem sótt höfðu heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu árið 2021 en alls tóku 6.929 einstaklingar þátt í könnuninni, um 300 frá hverri heilsugæslustöð. Könnunin var lögð fyrir á íslensku, ensku og pólsku.
Sjúkratryggingar telja könnunina veita verðmætar upplýsingar um það sem vel er gert og það sem betur má fara hjá einstökum heilsugæslustöðvum.