Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Samgöngustofa Forsíða
Samgöngustofa Forsíða

Samgöngustofa

Um eftirlit Samgöngustofu með flugrekendum

3. október 2025

Hlutverk Samgöngustofu er að tryggja flugöryggi. Flugöryggi snýst um að flug fari fram án slysa eða óhappa sem stofna lífi í hættu. Til þess þarf meðal annars flugvél að vera í öruggu ástandi og starfsfólk að kunna til verka.

Hvað felst í eftirlitinu?

Eftirlitið nær yfir allt sem gert er til að koma í veg fyrir atvik og slys í tengslum við flugstarfsemi:

  • Kerfi og reglur: Alþjóðlegar og innlendar reglugerðir sem setja ramma utan um rekstur flugfélaga, flugvalla og flugumferðarþjónustu.

  • Viðhald og eftirlit: Reglulegt eftirlit og viðhald flugvéla, búnaðar og innviða.

  • Þjálfun og hæfni: Menntun, þjálfun og stöðug endurmenntun flugáhafna, flugumferðarstjóra, flugvirkja og annars starfsfólks.

  • Öryggismenning: Að skapa umhverfi þar sem lögð er áhersla á forvarnir, t.d. með því að tilkynna atvik og læra af þeim.

  • Áhættu- og atvikagreining: Kerfisbundið mat á áhættu og greining á slysum og atvikum til að koma í veg fyrir endurtekningu.

Samgöngustofa ber ábyrgð á fjárhagseftirliti með flugfélögum sem hluta af heildarflugöryggi. Markmiðið er að tryggja að flugfélög hafi fjárhagslegt bolmagn til að standa við kröfur sem nauðsynlegar eru til að reka flugstarfsemi með öruggum hætti.

Samgöngustofa hefur umsjón með réttindum flugfarþega og sér til þess að veita þeim réttar upplýsingar. Réttindin byggja á alþjóðlegum kröfum og tengjast flugfélögum í rekstri.

Hvað felst ekki í eftirlitinu?

Verði flugfélag gjaldþrota geta farþegar orðið strandaglópar. Það veldur óþægindum en varðar ekki flugöryggi sem snýr að eftirliti Samgöngustofu. Það er ekki hlutverk Samgöngustofu að hafa afskipti af rekstri einkafyrirtækja er varðar viðskiptalega hagsmuni. Ábyrgð á rekstri hvílir á eigendum fyrirtækjanna sjálfra.