Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Samgöngustofa Forsíða
Samgöngustofa Forsíða

Samgöngustofa

Stafræn eigendaskipti – öruggari og hraðari skráning

1. apríl 2025

Frá og með 1. maí mun Samgöngustofa beina eigendaskiptum ökutækja yfir í stafrænt ferli. Markmiðið er að einfalda umsýslu og auka öryggi.

Samgöngustofa umferð

Pappírsferlið verður áfram í boði en afgreiðsla þess getur tekið allt að 7 daga þar sem aukin áhersla verður lögð á að tryggja öryggi og áreiðanleika gagna.  Af þessum sökum hefur Samgöngustofa óskað eftir því að skoðunarstofur hætti að taka á móti eigendaskiptum á pappír frá og með 1. maí nk.   

Viðskiptavinir eru hvattir til að nota stafræna ferlið, sem er einfalt og öruggt  á heimasíðu stofnunarinnar.

Kostir stafrænnar skráningar

Stafræn eigendaskipti bjóða upp á marga kosti umfram hefðbundna pappírsskráningu:

  • Betra aðgengi: Þjónustan er aðgengileg öllum, óháð staðsetningu eða tíma. 

  • Meira öryggi og áreiðanleiki: Rafræn undirritun kemur í veg fyrir fölsun og tryggir öruggara ferli. 

  • Einfaldara ferli: Ekki þarf lengur votta við undirritun, sem sparar tíma og dregur úr flækjum. 

  • Skjótari afgreiðsla: Eigendaskipti skrást strax í ökutækjaskrá við samþykki beggja aðila. 

  • Færri villur: Samræmt stafrænt ferli dregur úr skráningarmistökum. 

  • Sjálfbærni: Minni pappírsnotkun og færri ökuferðir draga úr umhverfisáhrifum. 

Stafræn þróun og framtíðarsýn

Samgöngustofa leggur áherslu á að þróa fjölbreyttar stafrænar lausnir til að bæta þjónustu og auka öryggi í samskiptum við notendur. Stafræn eigendaskipti eru hluti af þeirri vegferð, þar sem innviðir og samskiptaleiðir hafa verið styrktar með góðum árangri.   

Stefna stjórnvalda er að Ísland verði í fremstu röð í stafrænni þjónustu með áherslu á einfaldleika, öryggi og gott aðgengi. Opinber þjónusta þróast í átt að sjálfsafgreiðslu, rafrænum undirritunum og skilvirku gagnaflæði, með það að markmiði að bæta þjónustu og draga úr umhverfisáhrifum opinberra aðila. Lög og reglugerðir hafa verið aðlagaðar til að styðja við þessa þróun og auka skilvirkni, öryggi og aðgengi fyrir almenning og fyrirtæki.