Drónaflug við eldgos
5. júlí 2023
Ef eldgos hefst að nýju á Reykjanesi vill Samgöngustofa, að gefnu tilefni, árétta reglur sem gilda um drónaflug.
![](https://images.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/5YF3uztqLFNkG6OrnZOsY/ef7ed8ec6245d211f9ec4da6b0a2a924/droni.jpg?w=50&fm=webp&q=80)
![Dróni á flugi við eldsumbrot](https://images.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/5YF3uztqLFNkG6OrnZOsY/ef7ed8ec6245d211f9ec4da6b0a2a924/droni.jpg?w=1000&fm=webp&q=80)
Ef eldgos hefst að nýju á Reykjanesi vill Samgöngustofa, að gefnu tilefni, árétta reglur sem gilda um drónaflug. Þær eru settar til að tryggja öryggi, t.d. aðgreiningu dróna og annarra loftfara:
Drónar skulu EKKI fljúga hærra en 120 m yfir jörðu
Drónar skulu víkja fyrir mönnuðum loftförum
Dróna má ekki fljúga utan sjónsviðs stjórnanda hans
Umráðandi dróna ber ábyrgð á því tjóni sem kann að hljótast af notkun hans
Til dróna í atvinnuskyni eru gerðar frekari kröfur, til dæmis um skráningu
Verði vart við brot sem geta stefnt öryggi í hættu gæti þurft að grípa til þess að setja verulegar takmarkanir eða bann við drónaflugi við virka eldstöð.
Rannsóknarflug í forgangi
Við eldgos má búast við reglubundnu rannsóknarflugi flugvéla og þyrlna á vegum stjórnvalda við eldstöðina. Slíkt flug er í þágu almannavarna og vísinda og mun njóta forgangs fram yfir annað flug.
Til að tryggja öryggi verður svæði skilgreint sem hættu- eða haftasvæði fyrir starfrækslu flugvéla og þyrlna. Samhliða þessu verður skilgreint bannsvæði fyrir dróna á meðan rannsóknarflugið fer fram. Hætt er við að stuttur fyrirvari verði á slíku og mun umfang og gildistími markast af aðstæðum hverju sinni.
Stjórnendur dróna skulu fylgjast með nýjustu tilkynningum um slíkt bannsvæði á vef Almannavarna. Upplýsingar verða reglulega uppfærðar þar.
Hættu- eða haftasvæði fyrir loftför önnur en dróna verða auglýst með NOTAM
Jafnframt er bent á upplýsingar í flugmálahandbók AIP og gagnlegar upplýsingar og reglur um drónaflug
.