Árangursríkar samningaviðræður á ráðstefnu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar
25. nóvember 2025
Talsverður árangur náðist um aukin flugréttindi við endurskoðun og uppfærslu tiltekinna loftferðasamninga á loftferðasamningaráðstefnu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAN 2025, sem samninganefnd Íslands sótti í bænum Punta Cana í Dóminíska lýðveldinu, 10. til 14. nóvember síðastliðinn.

Frá ráðstefnunni ICAN 2025 í Punta Cana
Afraksturinn er meðal annars einföldun ferðalaga Íslendinga til fjarlægra slóða með íslenskum flugfélögum, en samninganefndin átti jafnframt gagnlega fundi varðandi möguleika íslenskra flugrekenda á flutningi farms erlendis.
Alls sóttu rúmlega 600 fulltrúar 87 ríkja ráðstefnuna og átti íslenska samninganefndin tvíhliða fundi með þeim ríkjum sem íslenskir flugrekendur lögðu áherslu á að ná samkomulagi við.
Samninganefndin áritaði í því sambandi nýjan loftferðasamning við Panama og þá var loftferðasamningur Íslands við Sameinuðu arabísku furstadæmin uppfærður og íslenskir flugrekendur tilnefndir samkvæmt samningnum. Þá átti sendinefndin ýmsa uppbyggilega fundi, meðal annars með fulltrúum frá Kenía, Belgíu og Gvatemala, ásamt árangursríkum fundi með Sádi-Arabíu.
Samninganefndin hóf viðræður um gerð loftferðasamnings við Ekvador, Tansaníu og Haítí. Samkomulag náðist við Brasilíu um tilnefningu íslenskra flugrekenda á grundvelli áritaðs samnings frá árinu 2010. Á öllum fundum samninganefndarinnar var lögð áhersla á heimildir um samnýtingu flugnúmera (e. codeshare) og aukin flugréttindi til handa íslenskum flugfélögum.
Í íslensku samninganefndinni voru Sigríður Eysteinsdóttir, deildarstjóri og aðalsamningamaður loftferðasamninga hjá utanríkisráðuneytinu, Kristín Helga Markúsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs hjá Samgöngustofu og Vala Hrönn Viggósdóttir, lögfræðingur hjá innviðaráðuneytinu.
